132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Samráðsskylda stjórnvalda við samtök fatlaðra.

385. mál
[18:52]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Magnússon) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að óska Alþingi til hamingju með hressileikaverðlaunin sem Nýjung, ungliðar Sjálfsbjargar, Landssambands fatlaðra, veitti hv. Alþingi 3. desember sl. Mig undrar reyndar það afskiptaleysi sem fjölmiðlar, að Morgunblaðinu frátöldu, sýndu deginum og þessum sérstaka viðburði hér í húsinu sem öllum sem þar voru bar saman um að hefði verið sérstaklega hátíðlegur.

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem við flytjum allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að móta tillögur um það hvernig samráð stjórnvalda við samtök fatlaðra verði gert skylt og eftir atvikum bundið í lög. Markmiðið verði að við undirbúning allrar löggjafar, setningar reglugerða og stjórnarframkvæmdir sem sérstaklega snerta fatlaða eða hafa áhrif á aðstæður þeirra í samfélaginu verði skylt að hafa samráð við þá í anda kjörorða Evrópusamtaka fatlaðra „Ekkert um okkur án okkar“.

Herra forseti. Þó að fatlaðra sé ekki getið sérstaklega í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, hvorki í 76. gr. né í jafnréttisreglunni í 65. gr. nema sem, með leyfi forseta, „að öðru leyti“, er ljóst að þessar reglur gilda greinilega einnig um fatlaða.

Í 1. gr. laga um málefni fatlaðra, 2. mgr., segir, með leyfi forseta:

„Við framkvæmd á markmiðum laganna skal tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra.“

Þetta er margítrekað í grunnreglum Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra að samfélaginu og kynntar voru á hv. Alþingi í janúar 1994. Þessar reglur hafa verið okkur leiðarljós í jafnréttisbaráttu fatlaðra.

Herra forseti. Um áratuga skeið hafa stjórnvöld gjarnan sent samtökum fatlaðra lög til umsagnar. Því miður hefur reyndin oftast verið sú að umsögnina skyldi gefa innan mjög skamms tíma og því hefur ekki gefist tími til að ígrunda mál eins og vert hefði verið með tilliti til lýðræðis á fundum í félögunum o.s.frv. Á þessu eru þó undantekningar, herra forseti, og er vinnsla að nýjum skipulags- og byggingarlögum dæmi þar um — þar sem samtök fatlaðra koma að sem umsagnaraðili snemma á ferlinu án þess að koma beint að samningu frumvarpsins.

Herra forseti. Sem betur fer eru þeir tímar liðnir að fjallað sé um fötlun, svo sem hreyfihömlun, sjóndepru eða heyrnarskerðingu, sem sjúkdóm sem dæmi fólk frá þátttöku í samfélaginu eða geri það að annars flokks borgurum. Almennt er unnið eftir þeirri hugsun að auðvelda beri fötluðum eins og kostur er að lifa og starfa í samfélaginu á sömu forsendum og aðrir. En til þess þarf samfélagið að taka sig á og ryðja ýmsum hindrunum úr vegi. Enn er því miður langt í land, t.d. hvað varðar aðgengismál. Of rík tilhneiging er til að fjalla um málefni fatlaðra, og reyndar margra annarra hópa samfélagsins, að þeim fjarstöddum, en krafa fatlaðra er: „Ekkert um okkur án okkar“. Fatlaðir eru sjálfir dómbærastir á það hvar skórinn kreppir og því er hætt við að farið sé á mis við sérþekkingu ef ekki er haft samráð við þá um málefni sem þá varðar sérstaklega, t.d. við undirbúning löggjafar, reglugerða eða ákvarðana í skipulagsmálum.

Í skýrslu Stefáns Ólafssonar, „Örorka og velferð á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum“, sem kom út nú á dögunum, kemur fram að Ísland er með mun verri afkomu öryrkja í hlutfalli við fullvinnandi fólk á vinnumarkaði en tíðkast á hinum Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu, þ.e. í ríkjum sem búa við svipaða eða lakari hagsæld en Íslendingar. Danir og Svíar skera sig úr en þar er orðin hefð fyrir að hafa gott samband við samtök fatlaðra. Svíar eru með stofnun umboðsmanns fatlaðra og frá 1999 hafa þar verið í gildi lög sem banna mismunun fatlaðra á vinnumarkaði í anda bandarísku ADA-laganna, Americans with Disability Acts. Danir stofnuðu ráð um málefni fatlaðra þegar árið 1980 með jafnmörgum fulltrúum frá fötluðum og yfirvöldum sem fylgist með aðstæðum fatlaðra í samfélaginu og ráðleggur stjórnvöldum auk þess að geta haft frumkvæði að úrbótum á einstökum sviðum.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka hlýjar móttökur sem ég hef fengið þær rúmu tvær vikur sem ég hef setið á þingi. Á það bæði við um allt starfsfólk þingsins sem og þingmenn alla sem ég hef átt samskipti við hvar í flokki sem þeir hafa staðið. Auk þess vil ég þakka forseta og forsætisnefnd að mér sé gert kleift að mæla fyrir þessari þingsályktun sem er mér hjartans mál. Ég er fullviss um að hún á stuðning vísan í öllum flokkum enda er hér um jafnréttis- og sanngirnismál að ræða.

Herra forseti. Að lokinni umræðu óska ég eftir að þessi þingsályktun verði send allsherjarnefnd til umfjöllunar.