132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að bætur almannatrygginga skulu fylgja almennri launaþróun nema í þeim tilvikum sem neysluvísitalan hækkar meira. Þannig er það samkvæmt núverandi löggjöf. Sú löggjöf hefur hins vegar verið brotin og ég hef sýnt fram á það margoft í blaðagreinum og hér á Alþingi að sú löggjöf hefur verið brotin. Það munar ekki mjög miklu en það munar, sú löggjöf hefur verið brotin.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hvatti til þess að við héldum stillingu okkar. Ég held að það sé ágæt ábending hjá hv. þingmanni. En sjálfur var hann ekkert sérstaklega stilltur í sínum ræðum hér áðan. Hans ræður gengu fyrst og fremst út á að réttlæta lág, bágborin kjör öryrkja og þeirra sem eru á bótum almannatryggingakerfisins. Hann sagði: Eina leiðin til að rétta hlut þessa fólks er að skapa aukin verðmæti í þjóðfélaginu.

Auðvitað skiptir það máli en það er til önnur leið og hún er til umræðu núna við gerð fjárlaga. Við erum að ræða á hvern hátt löggjöf sem við samþykkjum hér hefur áhrif (Forseti hringir.) á kjör þessa fólks.