132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:10]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti vænt um að hv. þm. Birkir Jón Jónsson tileinkaði mér stóran hluta af ræðu sinni í upphafi. Það ber merki um að hv. þingmaður hefur lagt við hlustir þegar við í Samfylkingunni höfum verið að tala um stöðu ungs fólks og stöðu barnafjölskyldna í landinu. Ég er honum sammála. Sá hópur er alls ekki ofalinn. Á honum hvílir gríðarlega mikill kostnaður. Þar erum við sammála og tek ég mikið mark á þeim orðum hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þegar hann tekur undir það með okkur í Samfylkingunni að svo sé.

En, virðulegi forseti. Það var eitt sem ég var ósátt við. Það var fullyrðing hv. þingmanns um að við ætluðum ekki að grípa til neinna aðgerða. Ég bendi á að Samfylkingin hefur lagt til lækkun á matarskatti, einmitt til að mæta mjög háu matvælaverði sem íþyngir sérstaklega stórum barnafjölskyldum og ungu fólki sem eru í millitekjuhópi.