132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem komið hefur fram að ritað hefur verið undir viljayfirlýsingu við Dansmennt sem mun taka við af Listdansskóla Íslands og námið verður starfrækt í sama húsnæði og Listdansskólinn er í í dag. Það er til að auka samfelluna í grunnnáminu og framhaldsnáminu og tryggja líka þeim nemendum sem nú þegar eru til staðar í Listdansskóla Íslands áframhaldandi námsval og námsbrautir. Hins vegar eigum við eftir að ganga frá samkomulagi þar um og það tengist m.a. því sem ég kom inn á áðan, og ég vona að menn skilji, og það er hvernig við ætlum að haga listnámi. Þá er ég ekki að tala bara um listdansinn, heldur listnámið almennt, þar á meðal tónlistarnámið, hvernig við munum haga því til framtíðar. Það er ekki búið að ganga frá því á milli sveitarfélaga og ríkis þannig að við munum að sjálfsögðu skoða þetta sem eina heild en ekki sem stakt verkefni. Við munum fara yfir listnámið sem eina heild þannig að það verði samfella, það verði heildstætt og samræmt skipulag á milli listgreina og listgreinum ekki mismunað.