132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:47]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil ekki alveg af hverju þetta kemur hv. þingmanni svona mjög á óvart í kvöld. Það er eins og hann hafi ekki lesið þingskjölin og fylgst með þeim umræðum sem hafa farið fram hér að undanförnu. Þessi mál eru í athugun.

Hvað hjúkrunarheimilin varðar þá þarf hv. þingmaður hins vegar hvorki að gera mér né öðrum í ríkisstjórninni upp einhverjar hugsanir um af hverju við höfum áhyggjur og af hverju við höfum ekki áhyggjur. Hann þarf ekki að vera með neinar getsakir um það.

Varðandi Mannréttindaskrifstofuna þá eru, eins og ég sagði áðan, fjárframlög í frumvarpinu til mannréttindamála. Þau verða hjá dómsmálaráðuneytinu og dómsmálaráðherra mun ráðstafa þeim eins og hann telur skynsamlegast að gera. Ef hann telur skynsamlegast að ráðstafa þeim til Mannréttindaskrifstofunnar mun hann væntanlega gera það en ég get hins vegar ekki fullyrt nákvæmlega um hvað hann muni gera.