132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:50]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessari tillögu mæta stjórnarandstöðuflokkarnir þeim þrengingum sem opinberu háskólarnir eiga nú í og kemur m.a. fram í lokun deilda eins og í Háskólanum á Akureyri og þeirri alvarlegu stöðu sem þar er uppi og í hinum opinberu skólunum. Það speglast vel í þeim úttektum sem hafa verið gerðar á stöðu þeirra þar sem það er rammað inn að skólarnir eiga við alvarlegar fjárhagsþrengingar að stríða og í raun og veru er kraftaverk hve mikil gæði skólanna eru miðað við þá þrengingu sem þeir búa við.

Sprenging hefur orðið í skólasókn á Vesturlöndum á síðustu árum. Sú sprenging kemur vel fram í þeim orðum fyrrverandi rektors, Páls Skúlasonar, að fyrir nokkrum missirum voru 5% af vinnuafli almennt með háskólapróf á Vesturlöndunum en innan nokkurra áratuga er því spáð að það hlutfall verði á milli 40 og 50%. Við Íslendingar erum verulegir eftirbátar annarra Norðurlanda og Evrópuþjóða hvað varðar háskólamenntað fólk á vinnumarkaði. Við þurfum að mæta því með verulega auknum framlögum og þessi tillaga stjórnarandstöðuflokkanna er fyrsta skref í þá átt. Ég segi já.