132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er verið að greiða atkvæði um stuðning við tónlistarskólana. Hæstv. menntamálaráðherra svaraði ekki í gær spurningunni: Hvernig er staða tónlistarnámsins við framhaldsskólana? Gerður var samningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins um að fjármagn kæmi til tónlistarnáms í framhaldsskólum á þessu ári. Að ég best veit rennur sá samningur út um áramótin. Ekki er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir neinu fjármagni til tónlistarnáms við framhaldsskóla. Er það þó hluti af námskrá þar, en mun dýrara.

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði þessu ekki. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs svörum því hér með því að leggja til að áfram verði staðið við og endurnýjað það samkomulag sem gert var við Samband íslenskra sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám í framhaldsskólum þangað til varanlegt samkomulag hefur verið gert.