132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við 2. umr. fjárlaga hækkaði meiri hlutinn á Alþingi fjárveitinguna til sjálfstæðu leikhúsanna, til leiklistarsjóðs sem úthlutað er til leikhópa sem stunda leiklist á atvinnugrundvelli við hliðina á stóru stofnanaleikhúsunum, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Núna ætlar stjórnarmeirihlutinn að taka þessa fjárveitingu, 10 millj. kr., sem þeir hækkuðu liðinn um til baka. Það er fáheyrt að slíkt sé gert og það eru köld skilaboð til starfsemi atvinnuleikhópanna, sem bjóða 170 þúsund Íslendingum að sjá leiksýningar sínar á hverju ári, að ekki skuli vera hægt að leyfa þessum 10 milljónum að standa inni á liðnum sem allur þingheimur hafði samþykkt að yrðu þar. Hér gerum við tilraun til að halda þessum 10 milljónum inni til starfsemi atvinnuleikhópanna og greiðum því ekki atkvæði með þessari lækkun stjórnarmeirihlutans. Ég segi nei.