132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að bjóða nýjan hæstv. fjármálaráðherra velkominn til verka um leið og það er hryggilegt að þurfa að gefa fyrsta frumvarpi hans í þinginu falleinkunn. Við vitum öll sem hér erum að í því er margt sem ekki mun standast, bæði á útgjalda- og tekjuhliðinni. Forsendur þess eru beinlínis rangar. Við vitum líka að við erum á einhverjum mestu þenslutímum í Íslandssögunni og það skortir á aðhald í ríkisfjármálum. Við vitum að framkvæmd fjárlaga hefur verið til vansa um árabil og lausung í fjármálum stofnana óþolandi. Ég brýni hæstv. nýjan fjármálaráðherra til að taka fast á og reyna að bæta vinnubrögðin svo að við jafnaðarmenn komum að skárra búi í fjármálaráðuneytinu vorið 2007.

Eina gleðiefnið við afgreiðsluna á þessum fjárlögum er sú staðreynd að hér erum við að afgreiða síðasta heila fjárlagaárið 2006 sem ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks fær að stýra. En samfelldur 11 ára vaxandi ójöfnuður í skattlagningu á almenning þar sem byrðarnar hafa skipulega verið færðar af okkur hátekjufólkinu á lífeyrisþega og láglaunafólk er orðinn slíkur (Forseti hringir.) að þessi stjórn hlýtur að sitja sitt síðasta kjörtímabil.