132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:22]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt að taka fram í upphafi að ég óskaði eftir því að fá að svara fleiri fyrirspurnum en þeim fjórum sem voru settar á dagskrá í dag. Vegna tímaleysis á þingi var ekki hægt að svara nema þessum fjórum.

Að mörgu leyti verð ég að taka undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, það er ekki gott að það taki þetta langan tíma að svara fyrirspurn. Svarið við þessari fyrirspurn var ekki tilbúið. Það skiptir mestu máli að svarið við fyrirspurnum sé vel vandað, að vandað sé til verka. Við þurftum vegna svars við þessari fyrirspurn — þær eru misumfangsmiklar — að leita út fyrir ráðuneytið eftir upplýsingum og því miður hafa þær upplýsingar ekki enn borist. Við munum ítrekað leita eftir þeim og ég mun að sjálfsögðu svara þessari fyrirspurn, hvort sem verður í skriflegu formi eða munnlegu. Menn verða að hafa í huga að það er ekki alltaf hægt að stjórna för varðandi upplýsingar sem fást utan ráðuneytis. Þannig er það. Mér finnst leitt að hafa ekki getað svarað þessari fyrirspurn í dag sem ég lagði mikið upp úr, sérstaklega með tilliti til jólahlés.

Síðan er kannski líka rétt að draga fram að oftar en ekki hefur það komið fyrir á þessu haustþingi að ég hef ætlað mér að svara fyrirspurnum en einhverra hluta vegna hafa þingmenn beðið mig að fresta því að svara sér, m.a. vegna fjarveru. Að sjálfsögðu ber að taka tillit til þess.