132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

118. mál
[16:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál snýst ekkert um einhverjar nefndarskipanir eða niðurstöður einhverra nefnda. Ég minni hæstv. ráðherra á að hann er líka ráðherra jafnréttismála. Hann er líka ráðherra þess að fólki sé ekki mismunað beinlínis lagalega, eins og ég tel að hér sé verið að gera.

Það er gott og vel með þessar tillögur sem hann las upp, hæstv. ráðherrann. Tillögur þessarar nefndar eru góðar. Hann nefndi líka upphæðina, 25 millj. kr. — er það þess virði að beita þessa nemendur, þessa foreldra, misrétti, brjóta á þeim jafnréttislögin? Ég tel að ráðherrann sem er ábyrgur fyrir þessum lögum láti lögbrot viðgangast. Sveitarfélögin eru ábyrg fyrir greiðslu húsaleigubóta, það er alveg rétt, en þau geta ekki einhliða tekið þá ákvörðun. Þetta er hluti af heildarpakka sem er á milli sveitarfélaganna og ríkisins.

Hæstv. félagsmálaráðherra er ábyrgur fyrir því að fólk sem sendir börn sín langan veg í skóla njóti húsaleigubótanna sem veitir svo sannarlega ekki af fyrir það. Hann er ábyrgur fyrir jafnrétti þessa fólks, jafnréttislögunum, sanngirnismálum. Burt séð frá öllum lögum er þetta slíkt sanngirnismál að mér finnst að hæstv. félagsmálaráðherra, sem ég treysti oft mjög til góðra verka, eigi ekki að vera að velta fyrir sér tillögum einhverrar nefndar. Hann á að sjá til þess að þetta mál fái réttláta og sanngjarna úrlausn fyrir áramót þannig að þegar nemendur sækja um annarnám, í upphafi næstu annar, geti þeir (Forseti hringir.) gengið að þessu vísu en þurfi ekki að hlusta á það að þetta sé enn í einhverri nefnd.