132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[18:39]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma í örfáum orðum að því að ég sé ekkert í veginum fyrir því að nýir aðilar komi inn á þennan markað þrátt fyrir þessa lagasetningu heldur þvert á móti. Þeir geta sótt um leyfi ekkert síður en aðrir, rannsóknarleyfi og virkjanaleyfi, þannig að ekkert lokar á það. Ég held að það sé algjör misskilningur. (Gripið fram í: Einræði ráðherrans.)

Mig langar að koma inn á annað sem hefur kannski ekki verið nógu skýrt í þessari umræðu og það er varðandi (Gripið fram í.) lagabreytinguna og umhverfismatið sem kemur skýrt og klárt inn, þ.e. að umhverfismat á ekki einvörðungu við þegar framkvæmdarleyfi er veitt. Það hefur komið fram í umræðunni hér hjá fleiri þingmönnum að talað hafi verið um að umhverfismatið ætti sér einungis stað þegar framkvæmdarleyfi verði veitt. Í fjölmörgum tilfellum þarf rannsóknarleyfið að fara í umhverfismat og ekki síst þegar um er að ræða gufuaflsvirkjanirnar þá þarf að byggja stór borplön og leggja vegi þannig að umhverfisraskið verður ekkert síður við rannsóknarundirbúninginn en við nýtingu. Við skulum því hafa það alveg á hreinu að umhverfismat þarf að eiga sér stað oftar en ekki og ekkert síður þegar um rannsóknarleyfi er að ræða. Það er síður kannski í vatnsaflinu þegar rannsóknirnar byggja á rennslismælingum og menn eru að vakta hvernig vatnasvið viðkomandi svæðis hagar sér. Þá þurfa menn ekkert að fara út í neinar raskanir á náttúrunni. Í gufuaflinu er alveg ljóst að menn geta þurft að fara í umfangsmiklar umhverfisaðgerðir til að komast á viðkomandi stað.