132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Oft hefur reynda fiskiskipstjóra og fiskifræðinga greint á um margt sem snýr að veiðum og viðhaldi þorsksins. Upp úr 1960 voru áhugaverðar deilur milli fiskiskipstjóra í Bolungarvík, Hálfdáns Einarssonar og Jakobs Þorlákssonar, og fleiri vestfirskra og breiðfirskra skipstjóra um hvort þorskurinn hrygndi yfirleitt í Breiðafirði. Á þeim tíma töldu fiskifræðingar þetta nánast útilokað og til lítils gagns fyrir þorskinn. Hrygning þorsksins við Suðvesturland væri það sem réði öllu um viðhald og vöxt þess eina þorskstofns sem vísindin töldu þá vera við landið. Nú vita menn betur og þorskurinn hrygnir þar sem skilyrði eru til þess.

Skipstjórar töldu nótaveiðar af stórþorski vondar fyrir viðhald stofnsins á árunum 1964–1968 þegar þær voru loks bannaðar. En forsvarsmenn Hafró sögðu þá að svona gamlir þorskar væru að deyja úr elli hvort sem væri og ástæðulaust annað en að veiða þá. Þennan stórþorsk töldu skipstjórar viðhald þorskstofnsins og Guðrún Marteinsdóttir hefur komist að því nýlega með rannsóknum sínum að stórþorskur skiptir miklu máli sem trygging fyrir lífvænlegar þorsklirfur og síðan seiði. Það er oft gott sem gamlir kveða.

Oft hafa skipstjórar haldið því fram að þorskfjölskyldur við landið væru margar og að stofnar væru í flóum og fjörðum. Um þetta deildu menn hér áður og fyrr en nú hefur verið sýnt fram á að þannig eru lífsskilyrði þorsksins, að það eru margir minni stofnar.

Innkoma þorsksins og ýsunnar í firði og flóa fyrir vestan, norðan og austan hefur verulega breytt atvinnuháttum á þeim svæðum. Rækjan sem áður var uppistaða atvinnu á hausti og vetri er nú ekki lengur til staðar og íbúarnir fá ekki að veiða fiskinn.

Fiskifræðin hefur oft verið sett fram sem trúarbrögð og aðfinnslur sjómanna sagðar vega að starfsheiðri manna (Forseti hringir.) á Hafrannsóknastofnun. Slíkt fær auðvitað ekki staðist, virðulegur forseti.