132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þetta er heldur leiðinlegt mál fyrir hæstv. ráðherra. Þó að ég taki ekki dýpra í árinni held ég að hæstv. ráðherra væri sómi að því að kaupa fallega blómakörfu og fara með hana persónulega til viðkomandi konu og biðja hana afsökunar. Að því væri virkilegur sómi, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: Hvað með ávísun?) Já, ávísunin mun vafalaust greiðast með tilheyrandi vöxtum eins og dómar dæma venjulega.

Það er kannski hægt að setja þetta mál í annað samhengi, hæstv. forseti. Það er ekki mjög langt síðan uppi voru ákveðin starfslok hjá forstjóra Byggðastofnunar. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að því nýlega á Útvarpi Sögu, sagði þá m.a. að viðkomandi forstjóri hefði gerst brotlegur í opinberu starfi og það hefði verið algjörlega óþolandi hvernig forstjórinn hefði tekið stjórn stofnunarinnar í sínar hendur og yfirgengið hana. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hv. þingmaður, eins fylginn sér og hann er, hafi tilkynnt viðkomandi ráðherra þá um þá stöðu sem upp var komin í stofnuninni.

Hvað gerði hæstv. byggðamálaráðherra í því máli? Hún verðlaunaði sérstaklega þann mann sem var talinn hafa gengið gegn lögum um starfshætti í opinberu starfi (Gripið fram í.) að mati stjórnarformanns Byggðastofnunar og samdi við viðkomandi mann um tæplega 20 millj. kr. starfslokasamning. Ja, það er sennilega ekki sama hvort við pissum standandi eða sitjandi, hæstv. ráðherra.