132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:56]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að segja að einhver sé að drepa málinu á dreif. Ég er heldur ekki að taka neina sérstaka efnislega afstöðu til þess sem Kjaradómur gerði. Ég er einfaldlega að taka afstöðu til þeirra afleiðinga sem úrskurður Kjaradóms gæti haft í för með sér. Það er það sem við erum að gera hér.

Ég er hins vegar að lýsa þeim ákveðna tvískinnungi sem mér finnst vera í umræðunni, sem er að menn segja að þetta sé ríkisstjórninni að kenna, hún hafi hækkað laun opinberra starfsmanna allt of mikið og þá hafi þurft að hækka laun þeirra sem heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd, og segja svo á eftir að auðvitað eigi opinberir starfsmenn sem fengu launahækkunina skilið að fá þá launahækkun. Síðan tala menn líka um að það sé kannski ekki hægt að hafa neitt öðruvísi kerfi fyrir Kjaradóm og kjaranefnd en um er að ræða og að miða þurfi við þessar viðmiðunarstéttir og þar fram eftir götunum. Þá erum við bara komin í hring í umræðunni. Og það sem við erum að reyna að gera með þessu frumvarpi og nefndarskipuninni er að skapa ráðrúm til að skoða þessa hluti upp á nýtt og reyna að láta ekki þau mál fara úr böndunum sem varða launamál þjóðarinnar.