132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Kynferðisafbrotamál.

271. mál
[15:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki að heyra á hæstv. dómsmálaráðherra að hann hafi miklar áhyggjur af þessum málum eða að fórnarlömb í kynferðisbrotamálum geti vænst þess að það sé á einhvern hátt verið að hlúa betur að þeim og bæta stöðu þeirra. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér fundust svör hæstv. ráðherra með ólíkindum. Hefur hæstv. ráðherra enga skoðun á því hvernig það er fyrir þá sem lenda í slíku að þurfa að standa frammi fyrir því að ekki sé jafnræði með ákæruvaldi og sakborningum í kynferðisbrotamálum og að gerendur í slíkum málum séu viðstaddir þegar málin eru tekin fyrir? Það er með öllu óeðlilegt eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni.

Það er líka mjög óeðlilegt að ekkert skuli vera gert til að auka það að leitað sé til Barnahúss á sama tíma og aðrar þjóðir, eins og hér hefur komið fram, eru að nýta þá góðu reynslu sem við höfum af Barnahúsi. Allt á þetta upptök sín í þeirri lagabreytingu sem gerð var 1999. Það hefur komið fram opinberlega, af því að mér heyrðist á hæstv. ráðherra að það væri umdeilt hvort meiri hluti skýrslna sé tekinn í dómshúsi og minni hluti í Barnahúsi, það hefur komið fram opinberlega að svo sé þó að ráðherra reyni að mótmæla því.

Þó að ráðherra vitni hér í einhverjar nýjar tölur frá 2004 þar sem hann heldur því fram, sem ég skal ekkert rengja, að kynferðisbrotamálum hafi ekki fjölgað heldur fækkað frá árunum 2002 og 2003 þá er það engu að síður staðreynd að aðeins hefur verið ein sakfelling á því 10 ára tímabili sem ég vitnaði í þegar fjölgun á málum er frá 123 í 222. Og þó að um sé að ræða fækkun, virðulegi forseti, á kynferðisbrotamálum þá hefur sakfellingum ekki fjölgað, (Forseti hringir.) eða er það svo, hæstv. dómsmálaráðherra?