132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:32]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í fréttum sjónvarps í vikunni kom fram að Fjármálaeftirlitið teldi brýnt að brugðist yrði við með lagasetningu svo það gæti beitt þrýstingi til að fá fram svör frá einstaklingum sem eru til rannsóknar hjá eftirlitinu. Eftirlitið sendi 1. nóvember 2005 bréf þar að lútandi til hæstv. viðskiptaráðherra en engin viðbrögð hafa komið fram við því. Fjármálaeftirlitið sendi bréfið í kjölfar þess að í haust úrskurðaði kærunefnd um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi að Fjármálaeftirlitið hefði ekki heimild samkvæmt lögum til að beita einstaklinga dagsektum ef þeir neituðu að veita eftirlitinu umbeðnar upplýsingar. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til ráðherra er sérstaklega getið sem tilefnis að eftirlitið hafi haft til athugunar hvort virkur eignarhluti hafi myndast í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Um það hafa staðið miklar deilur sem rekja má til að fyrri stjórn var velt úr sessi á síðasta ári.

Fjármálaeftirlitið taldi að valdatakan í sparisjóðnum kynni að hafa verið lögbrot og málinu hefur verið vísað til ríkislögreglustjóra. Eftirlitið beindi fyrirspurn vegna þessa til nokkurs fjölda aðila sem það hafði vitneskju um að tengdust viðskiptum eða eignarhaldi í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Í bréfinu kom fram að tilteknir aðilar hefðu þráfaldlega virt að vettugi fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins. Málið liggur því þannig að eftirlitið hefur takmörkuð úrræði til að rækja þá skyldu sem því er falið, að hafa eftirlit með virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Orðrétt segir í bréfi þess til ráðherra:

„Þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu til upplýsingagjafar er mönnum frjálst að gefa Fjármálaeftirlitinu langt nef og hunsa að gefa þeim upplýsingar við rannsókn mála því eftirlitið hefur engin úrræði til að fylgja upplýsingunum eftir.“

Fjármálaeftirlitið segir að heimildir þess til að hafa nauðsynlegt eftirlit með virkum eignarhlutum á fjármálamarkaði sé í uppnámi. Hið sama gildir um lög um vátryggingastarfsemi, lífeyrissjóði og verðbréfaviðskipti. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hann ætli að bregðast við þessari beiðni Fjármálaeftirlitsins. Megum við eiga von á því á næstu dögum að fá fram frumvarp sem veitir eftirlitinu þær heimildir sem kallað hefur verið eftir? Ég minni á að Fjármálaeftirlitið hefur óskað tafarlausra viðbragða í þessu máli.