132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:21]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort farið hafi verið yfir lög um opinberar eftirlitsreglur við samningu þessa frumvarps, hvort þess hafi verið gætt að ekki væri tvíverknaður hvað varðar eftirlitið. Mér heyrðist vera ákveðinn misskilningur í umræðunni t.d. hvað varðar eftirlit með ónæði af starfsstöðvum, hvort því eftirliti væri að einhverju leyti framfylgt með þessum reglum, hvort Vegagerðin eigi að fara að sjá um þessar starfsstöðvar eða hvort það sé eingöngu bundið við höfuðstöðvar. En það eftirlit á samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 að fara fram og eiga viðkomandi sveitarfélög að framfylgja því að bónstöðvar og bílaleigur og annað þess háttar valdi ekki íbúum í nágrenni ónæði.

Ég tel vert að skoða hvort verið sé að búa til enn eitt eftirlitið. Við höfum eftirlit með bílum sem skoðanastofur fara með og svokallað bifreiðaeftirlit. Einnig er eftirlit á vegum sveitarfélaga með starfsstöðvunum. Menn verða því að gæta þess að íþyngja atvinnurekstrinum ekki enn meira, t.d. með því að hækka gjöldin eins og hefur komið fram í umræðum með þessu frumvarpi. Það á einmitt að nota tækifærið og skoða þetta frumvarp með hliðsjón af lögum um opinberar eftirlitsreglur sem ég veit ekki betur en séu í gildi.