132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[15:41]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls. Ég tel fulla ástæðu til að huga að því sem hér er lagt til. En til að maður eigi einhverja von um að svo verði gert verður maður að vera dálítið bjartsýnn, miðað við þann hugsunarhátt sem ríkt hefur í gegnum tíðina á þessu landi. Ég tel að virðingarleysi fyrir fiskverndarsvæðum hafi verið ótrúlega mikið. Ég ætla að nefna um það dæmi.

Það var lítið svæði sem menn kölluðu frímerki, fiskverndarsvæði við suðausturströnd landsins. Skipstjóri sem stundaði veiðar á þeim slóðum í áratugi sagði mér sögu þess. Hann sagði að þegar mönnum hefði ekki gengið vel í veiðitúrum sínum þá hafi þeir gjarnan komið við í námunda við þetta svæði. Þar áttu þeir nánast alltaf víst að fá einhvern fisk. Einhverjir skammsýnir menn voru sífellt að sífra um að þetta svæði yrði opnað fyrir veiðiskap. Eins og venjulega þegar búið er að lobbíera nógu lengi í ráðamönnum á Íslandi var fallist á að opna svæðið. Eftir að það var gert þýddi ekki að koma þar nálægt, sagði þessi skipstjóri mér. Þá hættu þeir nú að koma þar við í leiðinni þótt illa hefði gengið í túrnum. Þetta gjörsamlega hvarf, sá aflavottur sem þar var ævinlega til staðar. Inni á þessu svæði var fiskur og greinilegt að hann skynjaði að þar væri hann öruggur og þar myndaðist samfélag sem var mikilvægt fyrir fisk. Ekki bara á svæðinu sjálfu heldur líka í kringum það. Sjómenn hafa haft skilning á þessu. Fyrir frumkvæði sjómanna og útgerðarmanna hefur slíkt verið gert, t.d. var á sínum tíma lokað svæði innst í Breiðafirði, fyrir fjórum áratugum eða svo. Það er örugglega mikilvægt.

Af hverju erum við að tala um þetta? Það er vegna þess að umgangur flota okkar um veiðislóðirnar er að okkar mati ekki nógu góður, að öllum líkindum. Við vitum að veiðarfærin sem eru notuð eru gríðarlega áhrifamikil í umhverfinu. Mér er sem ég sæi að einhvern tímann yrði hleypt upp á land slíkum græjum sem dregin eru um hafið og hafsbotninn. Ég er hræddur um að menn létu í sér heyra ef safna ætti einhvers konar lífverum á landi með græjum eins og þeim sem dregnar eru á eftir skipum í kringum landið.

Það er löngu kominn tími til að menn íhugi í fullri alvöru að fram fari virkilegt umhverfismat á veiðarfærum, að menn fái ekki að fara með veiðarfæri um lífríkið nema slíkt mat liggi fyrir og menn hafi fengið leyfi fyrir þeim. Allt virðist ganga og menn telja ekki einu sinni þörf á að gá að því hvort óhætt sé að hafa trollhlerana þrettán tonn. Er óhætt að bæta endalaust við útbúnaði og græjum, gúmmíhjólum og hvað það nú heitir, á þau veiðarfæri sem notuð eru?

Það mætti segja að Íslendingar séu afskaplega skammsýnir hvað varðar veiðar og umgang um lífríkið í hafinu í kringum landið. Ég held að það sé enginn ágreiningur um að við viljum hafa sem mest út úr því lífríki. En það geta verið skammsýn sjónarmið sem ráða því að útgerðarmaður vilji nota veiðarfæri sem hann veit að afkasta mikið. Hann hefur kannski ekki yfirsýn til að sjá hvað það þýðir til framtíðar. Það er ekki hægt að ætlast til þess. En stjórnvöld eiga að sjá til að rannsakað verði eins og mögulegt er hvaða áhrif veiðarfærin hafa og hvað óhætt er að gera lífríkinu. Þarna virðast stofnanir okkar hafa brugðist. Þeir sem ferðinni ráða og hafa gert í gegnum tíðina hafa hlustað á hin skammsýnu sjónarmið. Það er t.d. búið að ræða mikið meðal sjómanna, og jafnvel sumra útgerðarmanna frá því menn fóru að nota sum af þeim veiðarfærum sem notuð eru núna, t.d. flottrollin, og mótmæla því að þeim veiðarfærum sé hleypt inn í lífríkið eins og gert hefur verið. Stjórnvöld hafa ekkert gert í því máli, ekki nokkurn skapaðan hlut. Núna er loðnustofninn týndur. Það veit enginn nema að hann sé hruninn. Samt eru menn sendir með flottroll og hafa halað upp 500 tonn í einn farm af þeim fáu kvikindum sem gengin eru upp á landgrunnið. Er þetta óhætt? Eigum við að leyfa þetta? Eigum við ekki fyrst að sjá hvort eitthvað er eftir af loðnu áður en við leyfum mönnum að veiða hugsanlega síðustu kvikindin sem eftir eru?

Allt lýsir þetta skammsýni. Það lýsir líka því, sem er því miður ástæðan fyrir þessu öllu, að stjórnvöld eru svo talhlýðin. Þeir sem ráða hér ferð telja sig ævinlega þurfa að sækja ráð sín og visku til þeirra sem eru í bardaganum, að reka útgerðarfyrirtæki í landinu frá degi til dags. Þeir hugsa eðlilega um sinn eigin hag, kannski framar öllu. Við getum ekki kvartað yfir því þótt þeir vilji fá að nota nýjustu græjurnar. En það er stjórnvalda að bera ábyrgð á að óhætt sé að leyfa þær. Það væri hægt að nefna ótal dæmi um hvernig stjórnvöld hafa látið hafa sig út í hinar og þessar ráðstafanir. Ýmsar ákvarðanir hafa ekki verið mjög skynsamlegar. Ég hef ekki tíma til að ræða um það núna en skal gjarnan gera það síðar. En verði þessi tillaga samþykkt þá yrði það mikilvæg vísbending um að menn ætluðu að snúa af þessari braut. Ég vona sannarlega að menn hafi nú visku til að samþykkja tillöguna sem hér er til umræðu.