132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:00]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að launahækkanir ríkisins, sem samið var um árin 1997 og 2001, reyndust í framkvæmd hærri en tilkynnt hafði verið og menn gerðu ráð fyrir. (VF: Ráðherra skrifaði undir þá samninga.) Það liggur ljóst fyrir og má fletta upp á því hvar sem er. (Gripið fram í.) Það er hægt að fletta upp á því hvar sem er. (VF: Ráðherra skrifaði undir.) Ég hef orðið. Vill hæstv. forseti þagga niður í þingmanninum?

(Forseti (BÁ): Ég vil áminna þingmenn um að gefa ræðumönnum tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Þegar við fórum yfir samninginn í vor, 2005, töldum við sem skoðuðum hann — ég var einn sem skoðaði hann, það var skylda mín — að tryggilega væri gengið frá, það lá fyrir sameiginlegur skilningur allra aðila á því, hvað stofnanasamningarnir þýddu, hvað var innan þeirra ramma. Frá því var miklu betur og öruggar gengið en hafði verið í samningunum 1997 og 2001. Það liggur fyrir.

Framkvæmd þessa er eftir og er verið að undirbúa hana. Hún er í gangi. Ég hef hingað til treyst því að þeir munu ganga eftir (Forseti hringir.) eins við ætluðum. Ég hef ekki séð annað og meðan ég sé ekki annað þá treysti ég því.