132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:40]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni Merði Árnasyni fyrir ræðu hans. Þar er ýmislegt sem gera má athugasemdir við og ég geri ráð fyrir að koma að ýmsum þeim efnisþáttum sem hann vék að í ræðu minni síðar í dag um frumvarpið sem hér er til umfjöllunar.

Í ræðu hv. þingmanns kom fram að Samfylkingin væri í sjálfu sér hlynnt ákveðnum skipulagsbreytingum hvað varðar Ríkisútvarpið. Það kom reyndar líka fram að Samfylkingin væri jákvæð gagnvart ýmsum öðrum breytingum, eins og að færa dagskrárgerð frekar í hendur dagskrárgerðarmanna og auka völd yfirmanns Ríkisútvarpsins, ef ég skildi hv. þingmann rétt.

Hins vegar kom ekki fram í ræðu hv. þingmanns sem er nú helsti talsmaður Samfylkingarinnar þegar kemur að málum Ríkisútvarpsins, hver stefna Samfylkingarinnar er varðandi það hvernig eigi að haga rekstri Ríkisútvarpsins. Stjórnarflokkarnir hafa markað sér stefnu og hún kemur fram í því frumvarpi sem við ræðum hér. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru þeirrar skoðunar að breyta eigi Ríkisútvarpinu í hlutafélag. En það kom ekkert fram í þessari löngu ræðu hv. þingmanns hver stefna Samfylkingarinnar væri. Þess vegna spyr ég hv. þingmann, af því við höfum rætt málefni Ríkisútvarpsins og rekstrarumhverfi þess alloft á hinu háa Alþingi og í umræðu í þjóðfélaginu: Hver er stefna Samfylkingarinnar varðandi rekstur Ríkisútvarpsins? (Forseti hringir.) Telur Samfylkingin að reka eigi Ríkisútvarpið á hlutafélagaformi, sjálfseignarstofnunarformi (Forseti hringir.) eða einhverju öðru formi?