132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:45]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það fæst ekkert út úr hæstv. menntamálaráðherra. Annaðhvort hefur hún ekki samið frumvarpið og getur þess vegna ekki staðið skil á því hér eða þá að hún kann ekki hlutafélagalögin sem hún vitnar þó ótæpilega til og hefur bent öðrum á að lesa, sem menn gerðu nú áður en hún benti á það.

Þrettán liðir eru í 9. gr. Einn þeirra fjallar um stjórnina. Til þeirrar greinar er vísað í frumvarpi ráðherrans og hún getur engu svarað nema því að fjalla eigi um þetta í nefndinni. Þá verður hún tekin á orðinu nákvæmlega, hæstv. ráðherra, og þetta verður skilið þannig að hún leggi fram eða sendi mönnum sínum, sem eru tíðir gestir í menntamálanefnd, drög að þessum samþykktum. Það verði þá þannig og við skiljum það svo og komumst þá að þeirri niðurstöðu hér þegar klukkuna vantar korter í eitt að svarið við þessum tveimur andsvörum hjá mér sé það að menntamálaráðherra treysti sér kannski til að láta embættismennina liggja yfir þessu í nokkra daga og koma síðan með þetta í nefndina. Ég treysti því að það verði gert því að svona flausturslega á ekki að vinna frumvörp og greinargerðir. Það eiga að liggja fyrir svör og það er ekki bara við þingmenn að eiga í því heldur alla þjóðina. Þegar ráðherrar leggja fram frumvörp eiga að liggja fyrir svör þannig að frumvörpin séu algjörlega gagnsæ og almenningur geti tekið þau til umræðu og þingmenn geti vitað hvað átt er við í frumvörpum ráðherrans.

Hér hefur hún hreinlega brugðist. Á þremur stöðum er vitnað í 8., 10. og 11. gr. Ráðherrann veit ekkert til hvers er vitnað og vitnar í hlutafélagalögin sem hún kann ekki sjálf og setur leppa fyrir bæði augu þegar henni er bent á að þetta standist ekki.