132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Lög og reglur um torfæruhjól.

301. mál
[13:39]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu atriði. Það er eins með torfæruhjólaeigendur og alla aðra að þeir þurfa skýr skilaboð um reglur og þá jafnframt boð og bönn. Það er virkilega ánægjulegt að heyra um hina góðu samvinnu milli Umferðarstofu og forsvarsmanna eigenda torfæruhjóla í félaginu VÍK. Málið er að torfæruhjól eru seld og eru lögleg hér á landi og því þurfa að vera skýrar og uppfærðar reglur um notkun þeirra og skapa aðstæður þannig að eigendur geti notað hjólin og geti ekið á þeim á þar til gerðum svæðum. Ítreka verður og benda á að í raun eru eigendurnir ekki vandamálið, það eru fyrst og fremst reglurnar og í þessu sambandi þarf að vera skýr og góð samvinna á milli samgönguráðuneytis og umhverfisráðuneytis.