132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[11:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist stjórn þingsins verða að taka hæstv. iðnaðarráðherra í gjörgæslu og vita hvort ekki er hægt að fá fram hvort hún skilur sjálf hvað hún er að segja. Í einu orðinu segir hæstv. ráðherra að henni hafi orðið á mistök fyrir jól. Þá hafi úthlutun rannsóknarleyfa og nýtingarleyfa verið tengd saman en það hafi verið misskilningur. Nú byrjaði hæstv. ráðherra á því hér í skýringum sínum að segja að þetta sé auðvitað tengt. Hún spyr: Hver vill fara í rannsóknir nema geta verið fjárhagslega öruggur annaðhvort með því að fara í framkvæmdirnar sjálfur eða fá þær að fullu greiddar? Rannsóknarleyfin sjálf eru orðin markaðsvara.

Ég tel, frú forseti, að við verðum að hefja 1. umr. um þetta mál. Ræður ráðherra við 1. umr. snerust allar um það að enginn vildi fara í rannsóknir í vatnsföllum nema hafa einhverja tryggingu fyrir því að aðrir fengju ekki virkjunarréttinn þegar þar að kæmi. Ég vil að hæstv. ráðherra skýri betur sitt mál.