132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það eru staðreyndir að síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum árið 1995 hafa útgjöld ríkisins aukist um 120 milljarða á föstu verðlagi. Það eru staðreyndir. Þessir peningar verða einungis teknir annaðhvort með því að hækka skatta eða selja eigur ríkisins. Við skulum gæta að því að það sem fékkst fyrir sölu Símans er einungis helmingurinn af því sem útgjöld ríkisins hafa aukist árlega þannig að restin hefur komið af skattahækkunum. Þetta eru staðreyndir og þetta er staðfest af OECD og það á ekki að vera að deila um það hér. Annað sem er alvarlegt er að misskiptingin hefur aukist. Þetta er svona miðstýrð misskipting sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn hafa stýrt.

Það var athyglisvert að heyra hér ræðu hæstv. fjármálaráðherra en hann var að reikna fram í tímann tekjur og skattbyrði fjölskyldna þegar skattalækkanir væru komnar til framkvæmda. En gætum að því að þegar ég spurði fjármálaráðherra hér um árið hver misskiptingin yrði þegar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar væru komnar til framkvæmda þá stöðvuðust allar reiknivélar í ráðuneytinu. En nú þegar reikna á eitthvað hentugt fram í tímann fara þær allt í einu í gang aftur. Mér finnst mjög athyglisvert að menn séu að leyna upplýsingum og reikna út það sem hentar. Mér finnst þessi umræða og þær upplýsingar sem hér koma fram vera þess háttar að tímabært sé að fá fram umræðu í þinginu um hvað hægt er að láta hæstv. ráðherra reikna. Er það bara eitthvað sem hentar ríkisstjórninni eða er hægt að fá almennar upplýsingar um þróun misskiptingar fram í tímann þegar hæstv. ríkisstjórn er búin að koma málum sínum til framkvæmda?