132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var fróðlegt að fylgjast með þessari umræðu um hin lagatæknilegu álitamál sem hér eru uppi. En á einu vildi ég vekja athygli í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Hann sem ýmsir aðrir hafa gerst mjög ábúðarmiklir þegar vísað er í hina miklu samstöðu á Alþingi, að þingheimur sé sameinaður. Nú er það iðnaðarnefnd sem einhuga stóð að nefndarálitinu og þessum breytingartillögum. Það er alveg rétt að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, er áheyrnarfulltrúi í iðnaðarnefnd. Sú staðreynd endurspeglar styrkleikahlutföllin hér á þinginu. Við erum ekki ýkja mörg. En ef við lítum á hlutdeild okkar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í málafylgjunni þegar umhverfismál og stóriðjumál eru annars vegar þá breytist myndin heldur betur. Sannast sagna höfum við oft verið æði einmana þegar við ein höfum staðið vaktina fyrir Kárahnjúka, fyrir Þjórsárverin og fyrir önnur af hinum stóru hitamálum samtíðar okkar. Menn skulu því ekki tala af fyrirlitningu til okkar hvað þetta snertir því þegar allt kemur til alls erum við að tala fyrir drjúgan hluta íslensku þjóðarinnar og við ætlumst til að ábendingar og sjónarmið okkar séu tekin alvarlega og þeim sé sýnd tilhlýðileg virðing.