132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vinstri öflin lögðust á sínum tíma gegn álverksmiðjunni í Straumsvík, segir hv. þingmaður og veltir vöngum yfir því hvort hér sé ekki að endurtaka sig svipuð staða. Ég ætla að benda hv. þingmanni á að það er í raun bara einn vinstri flokkur núna sem er heill og sannur í andstöðu sinni við stóriðju á Íslandi þannig að því sé haldið til haga.

Varðandi umhverfisvænar virkjanir og það að við eigum Búrfellsvirkjun skuldlausa og allt þetta þá hefði að mínu mati verið sama út í hvaða atvinnuuppbyggingu hefði verið farið á þeim árum sem farið var út í uppbyggingu álversins í Straumsvík, það hefði allt skilað sér. Það var ekkert nauðsynlegt fyrir efnahag okkar og það hafa bankarnir verið að sýna fram á, m.a. greiningardeild KB-banka. Það var ekkert meiri arðsemi fólgin í því að fara út í álframleiðslu en hvað annað.

Nú er eðlilegt að ég spyrji hv. þingmann til baka: Finnst honum það ekki alvarleg ásökun frá einu stærsta iðnfyrirtæki á Íslandi, Plastprent, að þeir borgi 40- til 50-falt hærra raforkuverð en erlend stóriðja sem er lítill ábati að fyrir samfélagið? Finnst hv. þingmanni þetta ekkert alvarlegt? Finnst honum ekki eðlilegra að við mölum gull, eins og hann orðaði það, með umhverfisvænum virkjunum, sem ég er ekki sammála honum um að séu umhverfisvænar þær sem er núna verið að búa til fyrir stóriðju. Ég tel að við eigum að virkja ár í farvegi sínum eins og Mjólkárvirkjun og Sogsvirkjanirnar og gæti nefnt fleiri virkjanir máli mínu til staðfestu.

Finnst hv. þingmanni þetta ekki súrt í broti þessar yfirlýsingar frá stóru iðnfyrirtæki á Íslandi sem kvartar undan háu raforkuverði?