132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

303. mál
[14:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað verður maður spenntur að fá að taka þátt í umræðu um þetta væntanlega safn og því fyrr sem hægt verður að taka þátt í þeirri umræðu á opnum vettvangi, því betra.

Nefndin sem var skipuð 2002 fór seint og hægt af stað eins og komið hefur fram í ræðum í þingsölum en ég fagna því að hún skuli loksins vera búin að skila frumvarpinu af sér til hæstv. ráðherra. Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra segir að sterk tengsl þurfi að vera á milli sterkrar Náttúrufræðistofnunar Íslands og sterks Náttúruminjasafns. Það er auðvitað algert lykilatriði og þar af leiðandi finnst mér gott að heyra að hæstv. ráðherra skuli vera í samstarfi við hæstv. umhverfisráðherra um málið á þessu stigi.

Hins vegar vil ég gagnrýna nefnd hæstv. ráðherra fyrir að hafa ekki haft opið samráð um tillögu sína eða um frumvarpsdrögin, því mér er ekki kunnugt um að leitað hafi verið til félags eins og t.d. Hins íslenska náttúrufræðifélags sem er þó gefandi safnkostsins í upphafi. Mér finnst því að við verðum að brýna hæstv. ráðherra til að opið samráð um jafnveigamikil lög og hér um ræðir, það hlýtur að verða að eiga sér stað. Það er gott að þetta sé í skoðun í umhverfisráðuneytinu en svo á hin víðtæka skoðun hjá þeim aðilum sem starfa að málaflokknum eftir að fara fram. Við skulum vona að frumvarpsdrögin verði með þeim hætti að ekki verði um þau miklar deilur né að þau verði gölluð. Ég væri öruggari ef ég vissi að samráð hefði verið haft á undirbúningsferlinu.

Aðskilnaður Náttúrufræðistofnunar Íslands við Náttúruminjasafnið er auðvitað afar vandasamur og það þarf að líta vel á alla þætti mála í þeim efnum því við megum auðvitað ekki skilja Náttúrufræðistofnun Íslands þannig eftir þegar búið er að skilja safnið frá að hún verði eins og vanti á hana handlegg. Það verður að tryggja það að reisn hennar og starfsemi verði jafnöflug og að tengsl hennar við safnið verði tryggð til langrar framtíðar.