132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:52]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta vera eins og hver annar útúrsnúningur hjá hv. þingmanni. En ég þakka hamingjuóskir í minn garð. Ég minnist þess að við áttum orðaskipti um þetta efni hér fyrir nokkrum mánuðum og ég útilokaði þá ekki að rétt væri að setja lög sem þessi. En benti hins vegar á að við höfum leyst þetta á annan hátt fram til þessa. En mér finnst líka að ekki sé ástæða til að þegar maður réttir fram litla fingurinn þurfi endilega að grípa alla höndina, eins og mér finnst að hv. þingmaður sé eiginlega að fara fram á. Ég held að hér séum við að stíga mikilvægt skref. Við höfum ekki áður sett löggjöf sem þessa á Íslandi. Ég ætla ekkert að fullyrða um að þetta sé nákvæmlega það allra besta sem við getum hugsað okkur á þessu sviði. Hins vegar tel ég að verið sé að stíga skref í þá átt að færa þessi málefni sem varða hlutafélög í eigu ríkisins nær því sem tíðkast um fyrirtæki í eigu ríkisins, eða félög sem rekin eru eins og ríkisstofnanir þannig lagað séð, að upplýsingaskyldan er aukin. Hins vegar erum við engu að síður að halda kostunum sem fylgja því að breyta viðkomandi fyrirtæki í hlutafélag. Það eru ýmsir kostir sem því fylgja. Og þetta er þá nær því sem almennt gerist á markaði í sambandi við fyrirtækjarekstur en engu að síður eru upplýsingaskyldurnar til staðar og það er sérstaklega kveðið á um rétt fjölmiðla í frumvarpinu sem hv. þingmaður getur lesið og heyrði mig fara með áðan. Ég tel að hann sé heilmikill. Þetta varðar líka fundargerðir sem eru gerðar opinberar eftir ákveðinn tíma eins og hv. þingmaður þekkir.