132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Embætti útvarpsstjóra.

283. mál
[12:38]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það er full ástæða fyrir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að bera upp þessa fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra. Í ræðu sinni kom hæstv. menntamálaráðherra einmitt inn á ástæðurnar fyrir því að Páll Magnússon var ráðinn. Þetta hljómaði dálítið eins og verið væri að búa til starfslýsinguna eftir á reyndar, svo ítarlega var farið ofan í málið og mannkosti hans.

Það er auðvitað mjög einkennilegt að þegar 23 vel hæfir einstaklingar sækja um starf útvarpsstjóra sé ekki talað við einn einasta þeirra — með einni undantekningu reyndar, Pál Magnússon sem bað um að fá viðtal við hæstv. menntamálaráðherra. Hins vegar virðist útvarpsstjóri vinna vel fyrir kaupinu sínu, les fréttirnar ókeypis og hvaðeina. Það er dálítið merkilegt líka að hann er einn dyggasti stuðningsmaður þess að (Forseti hringir.) hlutafélagavæða Ríkisútvarpið.