132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Öldrunargeðdeild á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

481. mál
[13:46]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Úrræði geðsjúkra á Íslandi hafa verið í nokkrum brennidepli á liðnum missirum eins og málefni eldri borgara því að margt í málefnum þessara hópa er í ólestri. Það er óviðunandi og kannski sameinast þetta sérstaklega á krossgötum á milli þessara tveggja hópa ef um er að ræða gamalt fólk sem er geðsjúkt og á við slík vandamál að stríða.

Ástandið meðal margra í þeim hópi kallar bókstaflega á það að sérstök geðdeild fyrir gamalt fólk verði stofnuð eins og komið er inn á í þessari prýðilegu fyrirspurn hv. þingmanna. Ég vil nota tækifærið til að skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir úrræðum. Hann hefur viðrað þau sjónarmið á liðnum missirum að það verði að taka sérstaklega á í málefnum geðsjúkra og það verði að taka sérstaklega á í málefnum aldraðra. Þarna er um að ræða mál sem kallar á brýnar úrbætur. Vandamál af þessu tagi sliga þær fjölskyldur sem eiga við þau að stríða (Forseti hringir.) og það verður að ráða bót á.