132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Öldrunargeðdeild á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

481. mál
[13:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka mikilvæga umræðu vegna þessarar fyrirspurnar. Ég heyri að það er annar tónn í hæstv. ráðherra en var fyrir þremur árum. Skilningur á þessum málaflokki hefur aukist, bæði á þeim sjúkdómi sem hér um ræðir, geðsjúkdómum, og síðan þörfum aldraðra með geðsjúkdóma. Öldruðum fjölgar, þessi þjónusta er viðkvæm og mikilvægt að henni verði komið á. Ég er sannfærð um að það þarf að koma á sérstakri öldrunargeðdeild og ég get ekki heyrt annað en hæstv. ráðherra sé nánast á þeirri skoðun líka.

Ég vil nefna það hér að það er ekki alltaf svo að aldraðir sem eru með geðsjúkdóma séu líka heilabilaðir eins og mér fannst hægt að skilja á ræðu hæstv. ráðherra. En engu að síður, faghópur er að störfum, honum er gefinn stuttur tími til að skila niðurstöðum og ég fagna því. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Ef niðurstaða faghópsins verður sú að öldrunargeðdeild verði komið á mun ráðherra gera það. Hversu langan tíma telur hann að þurfi til að koma slíkri þjónustu á? Það er orðin mjög brýn þörf fyrir slíka þjónustu og eins og bent var á hér áðan þá ættu að vera tvær slíkar deildir starfandi hér á landi miðað við mannfjölda í samanburði við þörfina í Noregi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ef það verður niðurstaða nefndarinnar í lok mars að koma á slíkri öldrunarþjónustu, hvenær verður slík deild komin í gagnið hér á landi?