132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Suðurlandsvegur.

473. mál
[14:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Vegna ræðu hv. þingmanns er rétt að taka fram að samgönguráðherra hefur ekki skipt um skoðun. Ég vinn í samræmi við þau áform sem við höfum lagt upp með í samgönguáætlun sem hv. þingmaður getur kynnt sér.

Fyrirspurnin er í fyrsta lagi, með leyfi forseta:

„Hvaða fyrirætlanir eru uppi um breikkun Suðurlandsvegar, samanber nýlegar yfirlýsingar ráðherra í málinu?“

Svar mitt er svohljóðandi: Í vegáætlun, þ.e. samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008, eru á árinu 2007 311 millj. kr. til hringvegar merktar Hellisheiði – Sandskeið. Sú fjárveiting verður notuð til breikkunar á veginum. Ljóst er að frekari fjárveitingar til þessa verkefnis þurfa að koma til skoðunar við endurskoðun á áætluninni á þessu ári. Ég legg áherslu á að þessu verki megi ljúka með næstu fjögurra ára áætlun.

Í annan stað er spurt:

„Hvenær er áætlað að breikkun vegarins frá Rauðavatni til Selfoss verði lokið?“

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær breikkun vegarins milli Rauðavatns og Selfoss verður lokið og vísa ég til fyrra svars míns.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður:

„Hvaða kaflar vegarins verða þríbreiðir og hvaða vegkaflar fjórar akreinar?“

Í sambandi við hönnun næsta áfanga vegarins á næsta ári er verið að skoða veginn í heild milli Rauðavatns og Hveragerðis og verður þá að gera tillögur um tilhögun breikkunar. Skoða þarf áframhaldið milli Hveragerðis og Selfoss í framhaldi af því.

Í þessu samhengi hef ég talið skynsamlegt að nálgast málið á þeim forsendum að vegurinn milli Rauðavatns og Hveragerðis verði svokallaður 2+1 vegur og væntanlega í fyrstu einnig vegurinn frá Hveragerði til Selfoss. Síðan verði gert ráð fyrir því, og ég spái því að umferðarþróunin verði á þann veg, að í framhaldinu þurfi að gera ráð fyrir tvöföldum vegi milli Hveragerðis og Selfoss. En áhersla mín er sú að leiðin alla leið austur að Selfossi verði í 1. áfanga byggð upp sem 2+1.

Í fjórða lagi er spurt:

„Er uppi áætlun um breikkun vegarins um Þrengsli til Þorlákshafnar?“

Svar mitt er þetta: Engar áætlanir eru um breikkun vegarins um Þrengsli til Þorlákshafnar. Það er búið að endurbæta verulega gatnamótin á milli hringvegar og Þrengslavegarins. Umferðin um þann veg gefur ekki tilefni til þess að gera ráð fyrir breikkun að svo komnu máli.

Samkvæmt umferðartalningu, eins og fram kom fyrr, er ársdagsumferð um Þrengslaveg árið 2005 1.230 bílar en á Hellisheiðinni 5.990. Þess má geta til samanburðar að ársdagsumferð um Vesturlandsveg sunnan gatnamóta Þingvallavegar, eins og fyrr kom fram, var á síðasta ári 10.260 bílar og umferð á Reykjanesbrautinni við Straumsvík var 9.320 bílar. Við sjáum á þessum samanburði að Hellisheiðarvegurinn er ekki umferðarþyngsti kaflinn af þessum þremur mikilvægu umferðaræðum.

Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna, okkar alþingismanna, að meta aðstæður og forgangsraða og gera það fordómalaust. Það er alveg ljóst að af hálfu samgönguráðuneytisins og Vegagerðarinnar er lögð rík áhersla á að undirbúa og leggja á ráðin um framkvæmdir í vegamálum og hafa þar ekki síst að leiðarljósi umferðaröryggi. Ég tel að reynslan af endurbótunum í Svínahrauni, þar sem við erum búin að setja upp á löngum kafla svokallaðan 2+1 veg, sé býsna góð. Reynsla Svía og Norðmanna hvað varðar slíka uppbyggingu er ágæt og líka þar sem snjóþungt er. Ég held að við þurfum að velja þarna kosti sem eru nægjanlega afkastamiklir fyrir þessa vegi og um leið gæta þess að fyllsta öryggis sé gætt. Að því er stefnt.