132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar.

[11:11]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra fer yfirleitt í þá vörn þegar hún lendir í erfiðleikum í umræðu um byggðamál, sem er oft, að kalla athugasemdir útúrsnúninga. Þetta eru engir útúrsnúningar. Ég spurði einfaldlega eftir því hvað væri nýtt í þessari nýjustu skýrslu. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson sem er búinn að lesa hana telur sig vera búinn að finna sjö nýjar línur. Mig minnir að byggðaáætlunin sem við höfum unnið eftir, og á nú að skila skýrslu um, hafi verið kölluð 19-línu-aðgerðin þegar hún var sett fram.

Það sem ég er einfaldlega að tala hér um, virðulegi forseti, eru þessar þrjár skýrslur. Ein hefur ekki verið rædd. Ein var rædd og svo erum við að fara í þessa núna. Þessi er svona endurtekning á þessu öllu. Það er ekkert nýtt í þessari skýrslu.

Virðulegi forseti. Þetta er svipað og þegar hæstv. iðnaðarráðherra varð fimmtug fyrir nokkrum árum og bauð í mikla veislu á Lómatjörn. (Gripið fram í: Þér var …) Ég komst því miður ekki í þá veislu. En þetta er álíka og ef hæstv. iðnaðarráðherra mundi bjóða okkur í fimmtugsafmælið sitt á hverju ári þaðan í frá. (Gripið fram í.) Það gerir enginn kröfu um svoleiðis, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Aðalatriðið er að það getur stytt mjög umræðuna ef hæstv. byggðamálaráðherra getur sagt okkur það, eins og hér hefur komið fram, að það er nánast ekkert nýtt í skýrslunni sem við erum að fara að ræða núna, skýrslu sem lögð er fram á 132. þingi. (Iðnrh.: … áætlun.) Við erum líka að fara að ræða þessa skýrslu, virðulegi forseti. Hún er hér dagskrárliður nr. 2. Þetta á að ræða saman. Þess vegna er mikið atriði að fá þetta fram.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir talar um að iðnaðarráðherra, hæstv. byggðamálaráðherra, fylgi lagaskyldu með því að flytja Alþingi þessa skýrslu. Það er alveg hárrétt. En það er kannski fulllangt gengið í því ef þessi lagaskylda er framkvæmd með því að leggja alltaf sama þinggagnið fram og þá komi ekkert nýtt fram. Þá er spurning hvort tíma Alþingis sé ekki betur varið í eitthvað annað en að vera sífellt að tala um það sama. Ég hefði haldið að lagaskyldan fælist í því að segja okkur hvað hefði þá gerst nýtt frá síðustu skýrslu. En það er ekkert.

Virðulegi forseti. Ég tek eftir að hæstv. iðnaðarráðherra getur ekki svarað því hvað er nýtt í þessari nýju skýrslu en það hefur komið fram um þessar sjö línur sem nýjar eru.