132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:31]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 og jafnframt skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Auðvitað hlýtur sú umræða sem hér hefur farið fram að fara vítt yfir sviðið, enda er um mjög víðfeðman málaflokk að ræða sem snertir líf þeirra sem búa m.a. á landsbyggðinni.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu mun þingsályktunartillagan um stefnumótandi byggðaáætlun koma fyrir hv. iðnaðarnefnd. Ljóst er að mikið verkefni bíður okkar nefndarmanna í iðnaðarnefnd að fara yfir þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og vænti ég þess að nefndin verði samstiga í því mikla verkefni og hef ekki ástæðu til að ætla annað.

Hæstv. forseti. Ég mun í máli mínu gera að umfjöllunarefni bæði fortíð og framtíð þar sem við erum annars vegar að meta þann árangur sem hæstv. ríkisstjórn hefur náð á árabilinu 2002–2005 en jafnframt erum við að horfa fram á veginn til áranna 2006–2009. Hér er um stefnumótandi plagg að ræða og mjög mikilvægt að það sé vel úr garði gert.

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða til að byrja með þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun. Helstu aðgerðir sem gripið verður til í því skyni að ná fram markmiðum áætlunarinnar eru eftirfarandi, og eru þær í 23 liðum. Fyrsti liðurinn er bættar samgöngur. Það er svo sem engin tilviljun því að samgöngur eru gríðarlega mikilvægur hluti af byggðastefnu, að tengja saman byggðarkjarna og þjónustusvæði. Að gera eitt heildstætt atvinnusvæði víðs vegar um landið skiptir mjög miklu máli. Ég hef verið talsmaður þess að grafa göng eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og sem betur fer horfum við fram á mikilvægar framkvæmdir í því samhengi, göng um Óshlíð, sem er mjög hættulegur vegur, og jafnframt tengingu byggðarlaga við utanverðan Eyjafjörð. Þetta skiptir íbúa á viðkomandi ... Hæstv. forseti, get ég fengið hljóð?

Þetta eru gríðarlega mikilvægar framkvæmdir fyrir fólk á viðkomandi stöðum. Menn vitna mjög mikið til arðsemismats fyrir viðkomandi framkvæmdir en við skulum hafa það í huga að hér er um mannvirki að ræða sem munu endast í áratugi og byggja upp viðkomandi byggðarlög. Ég legg því mikla áherslu á að stjórnvöld í framtíðinni leggi mun meiri peninga í jarðgöng. Austfirðingar hafa uppi háleitar hugmyndir um miklar jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi, Vaðlaheiðargöngin eru í augsýn og allar þessar framkvæmdir munu skipta gríðarlega miklu máli fyrir viðkomandi byggðarlög.

Hæstv. forseti. Uppbygging þekkingarsetra eða háskólasetra á landsbyggðinni er eitt af þeim málum sem skiptir miklu máli fyrir þau byggðarlög sem hafa því miður ekki haft aðgengi að framhaldsmenntun á sínu svæði. Við þekkjum það að ef slíkar menntastofnanir eru ekki fyrir hendi hverfur unga fólkið úr viðkomandi byggðarlögum, oftar en ekki flytjast fjölskyldurnar á eftir og bæjarfélögin verða fátækari. Því er mjög mikilvægt að við bjóðum upp á framhalds- og háskólamenntun víðs vegar um landið.

Ég vil nefna í því samhengi Háskólann á Akureyri. Ef við horfum á það hvað sú glæsilega stofnun hefur gert fyrir ekki bara Akureyringa eða Eyfirðinga heldur landsmenn alla, þá hefur sú stofnun skipt gríðarlega miklu máli í byggðalegu samhengi. Tölur sýna að þeir nemendur sem fara í Háskólann á Akureyri eru mun líklegri til að setjast að á landsbyggðinni en þeir nemendur sem sækja nám sitt til höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt fögnum við því, eins og ég nefndi áðan í andsvari við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, að nú sé búið að stofna Háskólasetur Vestfjarða. Það er gríðarlega mikilvægt mál fyrir Vestfirðinga og ég hef trú á því að sú stofnun eigi eftir að valda straumhvörfum í byggðaþróun á Vestfjörðum, a.m.k. á Ísafirði og í bæjunum þar í kring. Einnig er búið að stofna háskólasetur á Austurlandi sem mun jafnframt gegna mjög miklu hlutverki í að auka þekkingarstigið í þeim byggðarlögum sem þar eru og nauðsynleg viðbót við þær miklu framkvæmdir sem þar eru í gangi.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna, af því að ég þekki dálítið til Þekkingarseturs Þingeyinga, að þá stofnun eigum við eftir að þróa betur og efla. Þar eru tveir ungir menn sem stýra þekkingarsetri um náttúrufræði, Náttúrustofu Norðausturlands, með miklum sóma sem hefur hleypt miklu lífi í bæjarfélagið. Þetta eru því allt verkefni sem skipta miklu máli og það er mjög mikilvægt — þó að hv. þm. Sigurjón Þórðarson hlæi að því — að efla þessa þætti því að við þurfum að auka þekkingu á landsbyggðinni. (Gripið fram í.) Við horfum á það að landsbyggðin hefur því miður verið að dragast aftur úr kjaralega séð gagnvart höfuðborgarsvæðinu. (SigurjÞ: Sammála því. Það er áhyggjuefni.) Það er áhyggjuefni og við getum öll sammælst um það. Þess vegna er mikilvægt að við höldum áfram á þeirri leið að byggja upp þekkingu í þessum byggðarlögum.

Síðan koma hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og láta eins og það hafi hreinlega ekkert verið að gerast á viðkomandi svæðum í þessum málefnum. Það er bara rangt. Ríkisstjórnin hefur verið að vinna mjög gott uppbyggingarverkefni á þessu sviði og það ber að þakka. Ljóst er að nútímabyggðastefna verður ekki rekin án þess að við eflum og hækkum menntunarstig í viðkomandi byggðarlögum. (Gripið fram í: Hárrétt.) (Gripið fram í: Viltu ekki verða menntamálaráðherra?) Þess vegna, hæstv. forseti, höfum við þingmenn Norðausturkjördæmisins ásamt fleirum lagt fram tillögu til þingsályktunar um byggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. (Gripið fram í.) Þar búa á fimmta þúsund manns sem hafa ekki aðgengi að framhaldsmenntun. Það er búið að hækka sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár og fólk er í dag að senda ólögráða börn að heiman, 16 og 17 ára unglinga, sem eiga að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að geta nýtt námsframboð í heimabyggð sinni. Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra hefur nú skipað starfshóp, sem hefur m.a. það hlutverk að kanna hvort grundvöllur sé fyrir námi við utanverðan Eyjafjörð. Ég gef mér það fyrir fram að fyrir því sé grundvöllur, því að hvergi annars staðar á landinu finnum við 4–5 þúsund manna byggðakjarna sem hefur ekki aðgengi að framhaldsmenntun, hvergi. Hér er því um mjög mikilvægt mál að ræða.

Hæstv. forseti. Af því að sagt er að hæstv. ríkisstjórn sé ekki mikið fyrir nýsköpun eða að koma á fót tæknigreinum og öðru slíku á landsbyggðinni, að við séum eingöngu í álverum, þá er það náttúrlega ekki rétt. Mig langar að fara örstutt yfir þau nýsköpunarverkefni sem hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. ríkisstjórn hefur hrundið af stað. Vil ég þar nefna fyrst að verja á 2,5 milljörðum í Nýsköpunarsjóð. Hv. þingmönnum hefur nú verið tamt að tala hér um ræðu hæstv. forsætisráðherra sem hann flutti á viðskiptaþingi í gær. Þar kom hæstv. forsætisráðherra með mjög spennandi hugmynd um að atvinnufyrirtækin í landinu, stórgróðafyrirtækin, eins og hv. þm. Jón Bjarnason er vanur að nefna þau, komi að því að byggja upp nýsköpun og tæknigreinar í landinu. Hæstv. forsætisráðherra sá fyrir sér sjóð upp á 6–10 milljarða, 6–10 þúsund milljónir, sem ætti að koma að því að byggja upp slíkar atvinnugreinar í landinu. Ríkisstjórnin mundi leggja fram 1,5–2,5 milljarða í þennan sjóð og fyrirtækin, þessi stöndugu fyrirtæki kæmu að því að mæta restinni og jafnvel lífeyrissjóðir. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli, að verja fjármagni til þeirra greina sem munu mynda undirstöðu í framtíðinni í tekjugrundvelli þjóðarbús okkar.

Mig langar að lokum, hæstv. forseti, að nefna aðeins stöðu þeirra byggðarlaga sem glíma við viðvarandi fólksfækkun. Við þekkjum það margir hv. þingmenn landsbyggðarinnar að þau eru vissulega til. Margar sjávarbyggðir hafa orðið fyrir hruni í rækjuveiðum og rækjuvinnslu, og jafnvel í byggðarlögum sem hafa haft lífsviðurværi sitt af því að bræða loðnu og aðrar uppsjávartegundir er mjög hart í ári. Spurningin er hvað við hv. þingmenn eigum að gera til að bregðast við því ástandi sem þar blasir við.

Ég sá í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun, eða í einhverju fylgiskjali, að menn hafa jafnvel velt upp þeirri hugmynd að endurgreiða námslán fyrir ungt fólk sem kýs að flytjast til þessara byggðarlaga, ungt fólk sem er með fullt af hugmyndum. Mér finnst slík hugmynd góðra gjalda verð (Gripið fram í.) að ungt fólk sem vill flytjast í hinar dreifðu byggðir og í þessi sveitarfélög fái jafnvel einhvern afslátt af námslánum sínum. Reyndar er það nú svo að allt frá árinu 1995 hefur núverandi ríkisstjórn lækkað endurgreiðsluhlutfall námslána úr 7% í 3,75%. Kratarnir sem voru í ríkisstjórn 1991–1995 skattpíndu þetta unga fólk. Það er búið að lækka endurgreiðslubyrði þessa unga fólks um helming. En ég væri tilbúinn að skoða leiðir að því að ívilna því fólki sem vill flytjast í þessi byggðarlög og er uppfullt af góðum hugmyndum (Gripið fram í.) og ég vil skoða það að við þessu verði hreyft.

Annað sem ég vildi nefna. Þó að ekki séu blómlegir tímar í íslenskum sjávarútvegi sökum rekstrarumhverfisins er það veiðigjald sem ákveðið hefur verið að innheimta af íslenskum sjávarútvegi skattur á landsbyggðina. Hér er um atvinnugrein að ræða sem nær eingöngu er starfandi á landsbyggðinni. Ákveðið var að taka visst auðlindagjald af þessari grein, svokallað veiðigjald, og taka sérstakan skatt af þeirri starfsemi. Þá hlýtur það að vera réttlætismál fyrir okkur, sama hvort við erum þingmenn höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar, við erum þingmenn landsins alls, að þeir peningar sem renna af veiðigjaldinu fari til þeirra byggða sem skila því inn í ríkissjóð. Það hlýtur að vera, því að við höfum séð því m.a. hreyft í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að það beri að skoða hvort þetta veiðigjald eigi að skila sér aftur til byggðanna í formi atvinnuuppbyggingar eða annars slíks.

Því miður hefur ekkert enn verið gert í því. Ég hef hreyft við þessu máli á hverju einasta ári frá því að ég settist á þing, sem eru að verða tæp þrjú ár, en því miður hefur ekkert orðið af þeim efndum. Reyndar er þetta ekki loforð í stjórnarsáttmálanum, þessu er teflt fram sem hugmynd, „til dæmis með því að“, stendur í stjórnarsáttmálanum. En ég held að við ættum að vinna að því, þingmenn allir, að hreyfa við þessu sjálfsagða jafnréttismáli að þeir fjármunir sem koma frá þessum byggðarlögum skili sér aftur heim til byggðanna og að því þurfum við að vinna.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka ágæta umræðu sem hefur verið upplýsandi. Ég fór í andsvar fyrr í dag við hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, og innti hana eftir stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum. Eins og allir vita er Samfylkingin næststærsti flokkurinn á Alþingi (Gripið fram í.) og telur sig vera fulltrúa landsbyggðarinnar og náttúrlega höfuðborgarsvæðisins, þá er náttúrlega ólíðandi að annars vegar komi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fram og segi: Við viljum sátt í íslenskum sjávarútvegi, og rétti fram útrétta hönd og biðji um að tekið verði í hana. Daginn eftir kemur svo hv. þm. Jóhann Ársælsson og segir: Samfylkingin lofaði fyrningarleiðinni og við það verður staðið. Hv. þingmaður heldur sig við fyrningarleiðina. Útvegsmenn hafa sagt: Það er ekki leið til sátta. Legið hefur fyrir að íslenskur sjávarútvegur mun ekki sætta sig við það að fyrningarleið Samfylkingarinnar verði farin. (Gripið fram í.) Í raun og veru talar því hv. þm. Jóhann Ársælsson í sínum hópi um það að að sjálfsögðu standi Samfylkingin við þau kosningaloforð og þá stefnu sem hún hélt fram fyrir síðustu kosningar. En annars vegar kemur svo formaður Samfylkingarinnar og talar loðið í hópi útvegsmanna á aðalfundi LÍÚ. Það er náttúrlega ekki boðlegt, hæstv. forseti, (Gripið fram í.) að gríðarlega stór stjórnmálaflokkur skuli ekki hafa stefnu í sjávarútvegsmálum. (Gripið fram í.)

Eins, hæstv. forseti, gætum við talað um hin umdeildu stóriðjumál. Hv. þingmenn, glæsilegir þingmenn Samfylkingarinnar, Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson, ríða um héruð á Norðurlandi og innprenta það í Norðlendinga að Samfylkingin standi með þeim í þessum málum. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og hv. þm. Helgi Hjörvar koma svo upp hér á Alþingi og tala í allt öðrum dúr, að nú verði að fara varlega. Ég hef nefnt tvö mál, þ.e. sjávarútvegsstefnu þjóðarinnar (Gripið fram í.) og stóriðjustefnu þjóðarinnar. Því miður hefur Samfylkingin ekki stefnu í hvorugu þessara mála. (Gripið fram í: Ha?)