132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég var við alla umræðuna í gær um byggðamál og einnig við lok umræðunnar hér í gærkvöldi. Það er hárrétt sem kemur hér fram hjá hv. þingmönnum, og reyndar í geðhrifum hæstv. ráðherra, að byggðamálin eru stórmál og um framkvæmd þeirra og stefnu eru mjög skiptar skoðanir, ekki síst um hver árangurinn hefur orðið. Um það ræðum við hér á þingi.

Við verðum þó að fara gætilega í því að setja okkur á það háan stall að fara að gefa einstökum ræðumönnum, einstökum þingmönnum, einkunnir fyrir skoðanir sínar og málflutning. Ég hygg að hver og einn reyni að tala af sinni sannfæringu og þeim hug sem hann ber til málefnisins. (HBl: Og eins og hann hefur vit til.) Og eins og hann hefur vit til, segir hæstv. fyrrverandi forseti þingsins, Halldór Blöndal, sem ég man ekki eftir að tæki þátt í umræðunni. Það leggur þar hver til sem hann má.

Ég vil ítreka, frú forseti, að mér finnst að hæstv. iðnaðarráðherra mætti umgangast þessi mál af meiri ábyrgð og stillingu hér í þingsal en gerðist í gær. En að sjálfsögðu er hæstv. ráðherra ábyrg orða sinna sem og við þingmenn. Ég ítreka það, frú forseti, að skoðanir eru mjög skiptar um byggðamálin og þess vegna ekki (Forseti hringir.) óeðlilegt að tekist sé á um þau og það verður að taka því.