132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:57]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér fór fram í gær umræða um stefnumótandi byggðaáætlun og framvindu byggðaáætlunar frá 2002–2005. Í þeirri skýrslu, um framvindu byggðaáætlunar, kemur fram mjög mikil gagnrýni á framkvæmd síðustu fjögurra ára. Það er aðallega gagnrýnt að það hafi ekki verið fjármagn og eftirfylgni á þeirri byggðaáætlun sem var lögð fram 2002. Sú byggðaáætlun leit mjög vel út, þar eru góð fyrirheit en það er gagnrýnt að það vantar fjármagn og eftirfylgni — sem sé að ríkisstjórnin fylgi sinni eigin byggðaáætlun eftir.

Eins hafa stjórnvaldsaðgerðir síðustu fjögur árin haft neikvæð áhrif og gengið hefur verið gegn þeirri byggðaáætlun sem sjálf ríkisstjórnin setti sér, það er líka gagnrýnisvert. Þegar litið er til byggðaáætlunar 2006–2009 hljóta þeir sem tóku þátt í umræðunni í gær, og það gerði ég m.a., að byggja á þeirri reynslu sem hefur fengist á síðustu fjórum árum og vera nokkuð tortryggnir á framhald byggðaáætlunar. Við hljótum að vera tortryggin á það að leggja fram byggðaáætlun ef ekki er svo farið eftir henni, ef ekki er unnið markvisst eftir henni. Það er mjög margt gott í þessari byggðaáætlun eins og þeirri fyrri. Eins og ég nefndi er margt í henni sem gæti verið úr stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um stuðning við atvinnulífið. En ef fara á fram með sama hætti og gert hefur verið — ef fjármagn og eftirfylgni vantar, ef unnið er þvert á byggðaáætlun, ef ekki er látið af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og ef atvinnulífið og atvinnugreinarnar fá ekki núna að jafna sig af ruðningsáhrifum stóriðjuframkvæmdanna — þá er ekkert að marka svona plagg. Það var sú gagnrýni sem kom hér fram (Forseti hringir.) og hún var málefnaleg.