132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs.

[15:10]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er einkennilegt að fylgjast með því hvernig sumir bregðast við þegar þeir eru leiðréttir. Ég átti svo sem ekki von á því að hv. þingmaður bæðist afsökunar á því að hafa sakað bæði ráðherra og ráðuneytið um að hafa brotið lög en hann bítur auðvitað höfuðið af skömminni þegar hann heldur áfram að fara með rangt mál og ósannindi. Gerð var grein fyrir því á föstudaginn hvers vegna verið væri að hækka þessi gjöld, gerð er grein fyrir því í umsögn um frumvarpið, í athugasemdum við frumvarpið og athugasemdum við einstakar greinar þess.

Það má kannski segja líka að sumir eru þeirrar gerðar að þeir telja ekki eðlilegt að fólk greiði fyrir þá þjónustu sem það fær og þeir verða auðvitað að hafa þá skoðun en það er ekki mín skoðun í þessu efni. Það er eðlilegt að menn greiði fyrir þessa þjónustu, ég held reyndar að í þessu tilfelli sé ekki verið að fara eins langt og efni út af fyrir sig stæðu til og ég hefði kannski frekar átt von á gagnrýni úr þeirri átt en þeirri fyrri sem ég nefndi.

Varðandi það hvort binda ætti þetta í lög þá var það þannig frá 1966–1997 að mat á kostnaðaráhrifum frumvarpa var bundið í lög en þegar ný fjárreiðulög voru sett 1997 var ekki gert ráð fyrir því að lögbinda það að þessi áhrif skyldu metin á þennan hátt. Það var því ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 1999 að þetta skyldi gert á þennan hátt. Ég held að þetta hafi reynst ágætlega, það fyrirkomulag sem verið hefur hingað til, og ekki beinlínis verið þörf á að lögbinda það. Ég sé heldur ekki að það væri neitt til skaða þótt það væri gert en hv. þingmenn geta auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvort nauðsynlegt sé að lögbinda allt jafnvel þótt það sé gott að ákveðnir hlutir séu það.