132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar.

[15:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er ljóst að þeim fjölgar sem gagnrýna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og þau áform sem uppi eru um fjölgun álvera á næstu árum. Það velkist enginn í vafa um að hér er um að ræða stefnumótun sem kemur til með að hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt efnahagslíf. Áform stjórnvalda í þessum efnum og upplýsingar um þau áform hafa áhrif á gengi krónunnar, rekstrarskilyrði í framleiðslu- og þjónustugreinum og hvað varðar fjármagnsflutninga frá og til landsins.

Þá hafa forsvarsmenn úr atvinnulífinu gagnrýnt stóriðjuframkvæmdirnar sem þegar hefur verið ráðist í og spurt um arðsemi slíkra framkvæmda.

Ríkisstjórnin segir arðsemina í góðu lagi og því óhætt að halda áfram á sömu braut. Forsvarsmenn í atvinnulífinu hafa réttilega bent á að þegar ríkið stendur í stórræðum af þessari stærðargráðu verði allar upplýsingar að liggja fyrir. Þær þurfa að liggja á borðinu svo að vitnað sé í orð forstjóra KB-banka nýlega. Í kjölfar ummæla hans birtist forstjóri Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, í fréttum og staðhæfði að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar væri 11%. Hæstv. forsætisráðherra sagði í umræðu hér fyrir fáeinum dögum að heildarávöxtun þessarar framkvæmdar væri 6,7%. Þessar staðhæfingar þurfa ekki að stangast á — ég held ekki slíku fram — annars vegar er talað um arðsemi eigin fjár og hins vegar heildarávöxtun framkvæmdarinnar. Ég efast hins vegar um forsendur þeirra upplýsinga sem hér eru reiddar fram og tel mikilvægt að Alþingi fái upplýsingar um þessar forsendur. Ég tek undir með talsmönnum úr atvinnulífinu að eðlilegt sé að þessar upplýsingar liggi fyrir og fráleitt annað en að svo verði áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar um frekari virkjanir eða stóriðjuframkvæmdir.

Og þar sem hæstv. forsætisráðherra er hér í þingsal vil ég heyra hvort hann sé ekki sammála mér um að þær þingnefndir sem hafa með þessi mál að gera sérstaklega fái þessar upplýsingar.