132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál áður en það fer til nefndar til nánari skoðunar að venju. Ég vil bregðast hér við nokkrum spurningum sem hv. þingmenn hafa borið fram.

Í fyrsta lagi hefur verið talað um hver hin raunverulega hagræðing af þessu sé. Það hefur komið fram að með sameinaðri stofnun er verið að sameina þarna tvær fremur litlar stofnanir undir einum forstöðumanni. Framkvæmdastjórn er ekki einsdæmi í fyrirtækjum sem vinna að heilbrigðismálum, framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnana samanstendur yfirleitt af lækningaforstjóra, hjúkrunarforstjóra og forstöðumanns sem heldur utan um starfsemina. Framkvæmdastjórn er einungis til þess að sjónarmið Sjónstöðvarinnar, Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og forstöðumanns komi saman í framkvæmdastjórn. Ég tel að það sé nauðsynlegt.

Síðan tel ég að hagræðing sé fólgin í hentugra húsnæði, í ýmsum stoðdeildum og það efli stofnunina til frambúðar.

Síðan eru þau verkefni sem liggja fyrir. Hér hefur verið minnst á þjónustu við landsbyggðina. Það er nauðsyn að efla hana eins og kom fram í andsvari hjá mér áðan. Það hefur að vísu verið nokkrum erfiðleikum bundið að fá fagfólk út á landsbyggðina til starfa. Varðandi talmeinafræðinga sem hv. 10. þm. Norðaust. kom hér inn á hefur það verið stefna okkar að efla þjónustu Heilsugæslunnar og gera hana þverfaglegri og starf talmeinafræðinga gæti verið einn þáttur í því ef við hefðum möguleika á að fá þá til starfa.

Varðandi undirbúning þessa máls er rétt að geta þess að það voru kallaðir til fundar forsvarsmenn ýmissa félagasamtaka og hagsmunaaðila í þessu máli. Ég sat sjálfur á ágætum fundi um þetta með þessum fjölmörgu aðilum og satt að segja var sá fundur mjög jákvæður og ég varð ekki var við neina bullandi andstöðu við þessi áform. Ég geri mér samt ósköp vel grein fyrir því að það eru skiptar skoðanir um þetta og alltaf þegar svona lagað stendur til veldur það auðvitað skoðanaskiptum og jafnvel kvíða hjá fólki meðan breytingatíminn stendur yfir. En ég vil fullvissa alla um að það stendur ekki til að fara að segja upp fólki. Það á að bjóða fólki þarna atvinnu og reka þessar stöðvar áfram og veita þá þjónustu sem þær gerðu.

Af verkefnum sem liggja fyrir og þyrfti að efla, t.d. hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni er endurhæfing. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar, 5. þm. Reykv. n., að það er almenn ánægja með þjónustu Sjónstöðvarinnar og að við munum kappkosta að halda þeirri þjónustu áfram, en endurhæfing hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni er verkefni sem þyrfti að efla.

Ég var spurður að því líka hvort það væri stefna ríkisstjórnarinnar að sameina þjónustu við ólíka hópa fatlaðra. Ég tel að ef sameining þjónustu við ólíka hópa eflir þjónustuna þá eigi að sameina og ég held að stærri stofnanir hafi meiri möguleika en litlar og því geti það verið réttlætanlegt í mörgum tilfellum en þetta verður að meta í hverju einstöku tilfelli. Við erum smátt samfélag þó að við séum vissulega öflugt samfélag og ég held að það sé réttlætanlegt að sameina litlar stofnanir til aukinna átaka.

Varðandi það að hvergi á byggðu bóli sé þessum hópum þjónað sameiginlega, eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar, 5. þm. Reykv. n., þá er það ekki rétt. Í Danmörku eru ýmsar aðferðir uppi, í sumum heilbrigðisumdæmum eru þessar stofnanir reknar sameiginlega en annars staðar er þetta rekið sitt í hvoru lagi. Það sama er uppi í Finnlandi, en í Noregi og Svíþjóð er yfirleitt slík þjónusta sitt í hvoru lagi. En við verðum náttúrlega að líta á það líka hvað þessi þjóðfélög eru mörgum sinnum stærri en okkar samfélag þannig að aðstæður okkar eru ekki sambærilegar að þessu leyti. Við erum lítið samfélag með litlar stofnanir og þar sem hægt er að reka þær sameiginlega þá er það yfirleitt til bóta.

Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem hafa komið fram en ég endurtek að ég þakka ágæta umræðu um þetta mál og málið fer nú til heilbrigðis- og trygginganefndar til nánari skoðunar.