132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:57]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við spurningum sem ég lagði hér fram við hann í ræðu minni. Það er auðvitað ljóst að það verður að vinna svona mál í sátt við notendur þjónustunnar og þarna eru 70% þeirra sem njóta þjónustunnar aldraðir sem hafa verið með ákveðnar efasemdir þannig að það þarf auðvitað að vinna í sátt við þá. Ég veit að tilgangur ráðherra hefur verið að bæta og efla þjónustuna og ég veit að hann er allur af vilja gerður og hann talar hér um að efla þjónustu við landsbyggðina, auka endurhæfingu o.s.frv. En ég vil ítreka það hér: Góð þjónusta má ekki verða lakari, t.d. hvað varðar Sjónstöðina, eins og bent var á veitir hún mjög góða þjónustu og sameining má ekki bitna á henni.

Ég spurði hæstv. ráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar í að sameina þjónustu við ákveðna hópa fatlaðra og þar átti ég í rauninni við þjónustu við langveik börn. Hæstv. ráðherra sagði að hann væri sammála því ef það efldi þjónustuna. Ég vil bara minnast á það hér að einn af ráðherrunum í ríkisstjórn, hæstv. félagsmálaráðherra, hefur í hyggju að flytja hluta af þjónustu við langveik börn í Húnaþing. Það gerir hann þrátt fyrir að aðstandendur langveikra barna hafi ítrekað beðið um að þjónustan verði á einum stað og umboðsmaður barna hefur líka bent á það í umsögn. Mér finnst þetta því mjög sérkennilegt og ég vil fara fram á það hér, herra forseti, að hæstv. ráðherra ræði þetta við samstarfsmann sinn í ríkisstjórn, hæstv. félagsmálaráðherra, og (Forseti hringir.) sannfæri hann um að fara sömu leið og hæstv. ráðherra er að fara hér.