132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Djúpborun á Íslandi.

61. mál
[18:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni. Við getum gert meira en að gera okkur sjálfbær, okkar litla samfélag hér á eyjunni Íslandi. Það sem ég vil sjá að við gerum er að flytja út þá kunnáttu sem við erum að afla okkur, þá þekkingu sem við öflum okkur í gegnum þá vísindamenn sem vinna í þessum jarðborunarverkefnum. Það erum við þegar byrjuð að gera. Og vitað er að Ísland er ekki eina landið á jarðríki sem getur nýtt háhita eða búið til orku í gegnum jarðhita eins og við gerum, það eru meiri möguleikar en vitað er í þeim efnum. Íslendingar hafa verið mjög öflugir og kraftmiklir á þeim vettvangi og þeir hafa verið brautryðjendur í að innleiða þessa þekkingu annars staðar. Ég horfi með ánægju fram á veginn í þeim efnum og trúi því að vísindamenn okkar eigi áfram eftir að vera brautryðjendur þar. Ég er líka sammála hv. þingmanni um að við eigum að leggja okkar af mörkum til heimsbyggðarinnar. Ef hægt verður í framtíðinni að hugsa sér einhvers konar stóriðju sem veldur ekki umhverfisáhrifum þá er það auðvitað fínt. Ég veit að það er fullt af fólki sem er að vinna í því tilliti, m.a. til að reyna að hætta að nýta ál, því að ál byggir á framleiðslu sem þarf að sækja jarðefni til að umbreyta efninu í það form sem síðan nýtist okkur í hinu mannlega tæknivædda samfélagi. Ég hef sjálf flogið yfir eyna Jamaíku og séð boxítnámurnar sem eru eins og rauð, flakandi, blæðandi sár í orðsins fyllstu merkingu í því fagra annars græna landi. Ég trúi ekki öðru en að vísindamenn veraldarinnar séu á harðahlaupum að reyna finna upp aðrar leiðir til að búa til létt efni sem ekki þurfa á boxítinu að halda. Ég er því sannfærð um að álverksmiðjur eru gamaldags verksmiðjur og þær eru á útleið, en ég veit líka að verið er að vinna að því víða að (Forseti hringir.) búa til stóriðju sem leysa mundi álverksmiðjurnar af hólmi. Við getum lagt því lið.