132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Djúpborun á Íslandi.

61. mál
[18:50]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það má segja að ég hafi nú þegar komið á framfæri ýmsum af þeim meginsjónarmiðum sem ég vildi veita inn í þessa umræðu í ágætum umræðum við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Þó eru nokkur atriði sem ég vil undirstrika sérstaklega sem varða þessa þingsályktunartillögu. Hún lætur lítið yfir sér en ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt af merkilegustu málunum sem við ræðum hér í vetur. Ég segi það vegna þess að það varðar byltingarkennda hugmynd um aðferð til að búa til orku úr iðrum jarðar. Þessi aðferð byggir á þeirri sérstöðu sem Ísland býr yfir, þ.e. það er einn af heitu reitunum. Það er skammt niður í mjög mikinn hita vegna þess að það eru innskot, ekki svo langt frá yfirborði jarðar, sem gera það að verkum að vatn sem leikur í nánd við þau verður mjög heitt, kemst í krítískt ástand, eins og hv. þingmaður lýsti svo vel áðan. Mér fannst reyndar, frú forseti, merkilegt að hann skyldi geta það án þess sjálfur að komast í krítískt ástand við að fjalla með svo tiltölulega einföldum hætti, eins og honum tókst, um þetta gríðarlega flókna efni. Sýnir það nú enn og aftur hve stærðfræðikennslan var góð í máladeild MR á árum fyrr, eins og áður hefur komið fram í umræðum hér á þinginu.

Ég tel að hægt sé að jafna þessu til þess, ef það tekst, eins og að með vissum hætti sé búin til gróttakvörn sem malar gull. Ég er sammála þeim viðhorfum sem hafa komið fram í umræðunni, eins og hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að það er aldrei hægt að vinna orku úr iðrum jarðar með borunum án þess að eitthvert rask hljótist af. Það gefur augaleið. Ekki þekki ég tæknina sem hér á að beita svo vel að ég treysti mér til að segja að umbúnaðurinn sem þarf undir borana sé ekki svo miklu meiri að af honum skapist töluvert meira rask en af hinum venjulegu hefðbundnu holum. Ég veit það ekki. Það er þó alla vega ljóst að bora þarf færri holur til að fá gríðarlega orku. Hitt liggur líka alveg fyrir að með því að komast svona langt í iður jarðar komast menn í tæri við orku sem er svo miklu meiri en við höfum áður getað ímyndað okkur að væri hugsanlegt að vinna. Ég jafna þessu við það að menn fyndu mengunarlausar olíulindir vegna þess að olíulindir þarfnast líka umbúnaðar og bora og fara illa með land. Þarna er um að ræða miklu færri holur, þær þarfnast líka ákveðins rasks í náttúrunni en það sem streymir upp er mengunarlítið og því segi ég að það stappar nærri að hægt sé að segja að þetta séu mengunarlausar olíulindir ef þetta tekst til.

Ég heyrði fyrst af þessari hugmynd fyrir sennilega hartnær 15 árum þegar merkir vísindamenn veltu þessum möguleika fyrir sér á fræðilegan hátt í tengslum við umræðu sem þá var hjá Hitaveitu Suðurnesja. Ég verð að viðurkenna að ég er svo allt of jarðbundinn maður að ég taldi að þetta væru órar vísindamanna sem ekki hefðu nægilega gott jarðsamband. Það kemur hins vegar í ljós að möguleikinn sem í þessu felst er raunverulegur. Eins og svo oft áður eigum við aldrei að vanmeta sköpunarþróttinn og kraftinn sem býr í hinni vísindalegu og skipulegu hugsun og þekkingarleit. Ef hægt væri að flýta þessari áætlun, eins og hér er lagt til, þannig að niðurstaða komist í það hvort þetta er hægt, þá held ég að við hefðum náð gríðarlega merkum áfanga.

Reyndar tel ég, frú forseti, að þetta sé svo merkilegt mál sem hér liggur fyrir að það væri í sjálfu sér alveg hægt að segja að þangað til að menn hefðu skoðað það til hlítar ætti ekki að ráðast í frekari virkjanir á Íslandi. Vegna þess að ef þetta er mögulegt þá er landslagið algerlega gjörbreytt. Þá þýðir það einfaldlega að hægt er að afla orku til að ráðast í vetnisframleiðslu og hugsanlega í stóriðju sem ekki mengar umhverfið, því að ég og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir erum bæði, eftir þessa umræðu, sammála um að við erum ekki á móti slíkri stóriðju. Ég hel þess vegna að tillagan og hugsunin sem liggur að baki hennar sé mjög jákvæð.

Ég undrast það, frú forseti, eftir þá miklu orrahríð sem staðið hefur í þessum sölum um orkumál og stóriðju að enginn hv. þingmanna stjórnarliðsins skuli láta svo lítið að heiðra þingið með nærveru sinni, utan að vísu einn og bið ég hv. þingmann afsökunar á því. Enda beindi ég þessu fyrst og fremst til þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem alltaf eru eins og fló á skinni og geta aldrei setið kyrrir í sætum sínum þegar verið er að ræða um stóriðju því að fíkn þeirra í stóriðju og eins miklar virkjanir og þeir mögulega geta komið auga á er vel þekkt í þessum sölum. Þetta mál hins vegar, ef að veruleika yrði, gefur, eins og hv. þingmaður reifaði mjög vel í framsögu sinni, möguleika á að sætta ákveðin sjónarmið sem hafa verið að takast á. Djúpholur af þessu tagi kynnu að gefa okkur möguleika á að vinna 3–5 sinnum meiri orku úr hverju háhitasvæði en með hinum hefðbundnu aðferðum. Þetta eru svo gríðarleg verðmæti að ég held að við eigum erfitt með að skynja til fullnustu hvað í þeim felst.

Því segi ég það, frú forseti, að ég styð þetta mál hjartanlega og þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hafa haft frumkvæði að því og ég undrast það í reynd að þetta mál skuli ekki hafa vakið meiri athygli en það hefur gert nú þegar, vegna þess að hér er um að ræða byltingarkennda nálgun að því að leysa orkuvanda Íslendinga og hugsanlega margra annarra. Við höfum það, þingmenn, flest á vörunum að nauðsynlegt sé að hverfa frá þeirri orkunýtingarstefnu sem við fylgjum í dag, Íslendingar, og keyrum t.d. allan fiskiskipaflotann á og að sjálfsögðu flugvélafloti heimsins sem er utan við öll Kyoto-ákvæði sem aldrei eru tekin inn í neinar samningaviðræður eða útreikninga. En ef okkur tekst t.d. að finna tækni, sem er bara tæknilegt úrlausnarefni og spurning um hvað við verjum miklu atgervi og fjármagni til að leysa, til að ná þeim áfanga að vetni yrði drifhvati samgangna á Íslandi, fiskiskipaflotans og helst flugflota heimsins að endingu, þá er alveg ljóst að það þarf mikla orku til að framleiða vetnið. Það yrði mikilvægt framlag, a.m.k. til að stemma stigu við þeirri miklu vá sem felst í hlýnun andrúmsloftsins. Hvaðan eigum við að fá þá orku? Bara til að klára þörfina á Íslandi þyrftum við eina og hálfa Kárahnjúkavirkjun. Hvar eigum við að fá þá orku?

Frú forseti. Hér er vísir að svari: Við eigum að reyna að skoða þessa möguleika eins og hér er lagt til fyrr en stjórnvöld hafa áformað og leggja til þess meira fjármagn, eins og hv. þingmaður hefur lagt til.