132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þróun skattprósentu.

454. mál
[15:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um skattamál. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt og ég mun gera hvað ég get, virðulegi forseti, til þess að sú umræða verði sem best og verði upplýsandi, því að sú hefur ekki alltaf verið raunin. Því meiri umræða og því meiri upplýsingar sem koma til fólks, því betra. Það er í rauninni ástæðan fyrir því að ég legg fram þessa fyrirspurn, virðulegi forseti, að ég vil að upplýst verði um hina ýmsu þætti í skattastefnu ríkisstjórnarinnar og skattamál almennt.

Fyrirspurnin sem ég legg fram snýr ekki einungis að einni prósentu, eins og oft er talað um, heldur er ég að vísa í og spyrjast fyrir um þróun á því sem við alla jafna köllum tekjuskatt en er líka útsvar, því að það sem gerist þegar við fáum launaseðilinn okkar er að þá fáum við eina prósentu sem ber nafnið tekjuskattur en það sem menn gleyma er að þar er oft og tíðum bæði um að ræða útsvar til sveitarfélaga og tekjuskatt. Ég held að það sé mjög villandi í umræðunni — það er mjög margt villandi í umræðunni — að það er eiginlega aldrei minnst á það. Þess vegna held ég að það sé afskaplega mikilvægt að þetta sé aðskilið á launaseðlum, sem er að vísu annað mál en náskylt sem ég ásamt fleiri þingmönnum höfum flutt frumvarp um. Það skiptir hins vegar máli, eins og ég sagði, að fólk sé upplýst um hvernig þróunin hefur verið og þess vegna hef ég lagt fyrir hæstv. fjármálaráðherra fyrirspurn sem hljóðar svo:

Hversu há var skattprósentan árið 1995 í sveitarfélögum með hámarksútsvar annars vegar og lágmarksútsvar hins vegar af: — og síðan eru tilgreind mismunandi mánaðarlaun í sex stafliðum, frá 100 þús. kr. og upp í 350 þús. kr.

Einnig er spurt um skattprósentuna árið 2008, þegar fyrirhugaðar skattalækkanir sem teknar hafa verið ákvarðanir um verða að fullu komnar til framkvæmda, og skipti ég því á sama hátt hjá sveitarfélögum með hámarksútsvar annars vegar og lágmarksútsvar hins vegar.

Ég vonast til að fá skýr svör, og ég á ekki von á öðru frá hæstv. fjármálaráðherra, og að þetta verði liður í því að upplýsa um skattamál og skattapólitík hér á landi.