132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[15:40]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að fara yfir málið hér og upplýsa hv. þingmenn. Eins og hv. þingmenn vita liggur fyrir að fjármunir hafa verið tryggðir til þess að setja af stað framkvæmdir við fyrri áfangann við Sundabrautina, þ.e. yfir Kleppsvík að Hallsvegi af Sæbrautinni. Hæstv. umhverfisráðherra úrskurðaði að heimilt væri að leggja Sundabraut samkvæmt tillögu um svokallaða innri leið. Sá úrskurður var kynntur í byrjun nóvember sl.

Úrskurðurinn fjallaði einungis um fyrri áfangann, þ.e. kaflann frá Sæbraut yfir Kleppsvík að Hallsvegi. Samkvæmt úrskurðinum er heimilt að fara innri leiðina en gert er ráð fyrir að hafa víðtækt samráð við íbúa beggja vegna við Kleppsvíkina. Formlegt samráð er samkvæmt mínum upplýsingum ekki hafið og verð ég að lýsa miklum vonbrigðum mínum með að tíminn skuli ekki hafa verið nýttur frá því í byrjun nóvember til að leita allra leiða til góðs samkomulags við íbúana á svæðinu eins og úrskurðurinn gerir ráð fyrir.

Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar gengur á undan í undirbúningi verkefnisins. Vegagerðin kemur síðan að sjálfsögðu að verkinu og ber ábyrgð á endanlegri hönnun þegar allir þessir þættir liggja fyrir. Hönnun vegna fyrri áfangans er ekki búin, eins og nærri má geta þar sem ekki er búið að ákveða endanlega legu vegarins. Hönnunin verður sett af stað strax og samráðsniðurstaðan er fengin. Gert er ráð fyrir að undirbúningsferlið hvað varðar hönnun og gerð útboðsgagna taki nærri tvö ár.

Rétt er að geta þess að vinna við umhverfismatsskýrslu er þegar hafin vegna síðari áfanga, þ.e. frá Hallsvegi og upp á Kjalarnes. Sú vinna gæti tekið um tæpt ár en hún er sem sagt hafin þannig að við erum á fullri ferð á vettvangi Vegagerðarinnar að undirbúa báða áfangana.

Þetta er sem sagt staðan við undirbúninginn. Við bíðum eftir því að samráðinu ljúki svo að hægt verði að setja hönnunarvinnu á fulla ferð.

Hv. þingmaður spurði hvort til greina komi að færa brautina út fyrir Hamarinn í Hamrahverfinu. Þess ber að geta að í úrskurði umhverfisráðherra og í þeirri vinnu kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir þeirri legu og sérstaka skoðun þurfi til þess ef fara ætti þá leið að færa ætti brautina út fyrir Hamarinn. Ég tel að í því samráðsferli sem fram undan er og þarf að vinna að sé sjálfsagt að líta til þess, ef það þyrfti þá ekki að leiða til frekari tafa á verkinu, en auðvitað verðum við að sætta okkur við niðurstöðu umhverfismatsins og þess hvernig hægt er að koma veginum þarna fyrir sem best.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að beita mér fyrir því að Vegagerðin skoði þann kost í samráðsferli við íbúana.

Í þriðja lagi spurði hv. þingmaður hvernig ráðherra litist á vel rökstuddar athugasemdir íbúa sem lúta að færslu Hallsvegar frá Hamrahverfi. Þá vil ég lýsa því yfir að með sama hætti tel ég eðlilegt að líta til þess í samráðsferlinu og er sannfærður um að Vegagerðin muni ekki leggjast með neinum hætti gegn því að sú breyting verði gerð á þeirri legu, enda á það ekki að þurfa að tefja framkvæmdina á nokkurn hátt. Það er fyrst og fremst skipulagsmál og verður að vera á valdi borgarinnar að leysa úr því máli. Það truflar ekki Vegagerðina.

Virðulegi forseti. Þetta er niðurstaða mín og svör mín við þeim fyrirspurnum sem hér voru bornar fram.