132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[15:55]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu mjög mikilvægt mál sem er Sundabrautin, sem við erum öll sammála um að sé mikilvæg og skipti miklu máli. Hún er tenging frá Kjalarnesi og alla leið inn í miðborg Reykjavíkur. En það hefur nú komið fram í þessari umræðu, og við þekkjum það, að hér er um að ræða mjög mikilvægt skipulagsmál innan sveitarfélagsins Reykjavíkurborgar og því miður liggur ekki fyrir niðurstaða á þeim vettvangi í þessu máli. Ég verð að segja að mér finnst það mjög miður og ætla ekkert að draga upp neinn sökudólg í því en staðreyndin er sú. Eins og ég sagði þá er það miður og hætt er við að málið tefjist ef ekki tekst að kippa því í liðinn.

Það náðist mikilvægur áfangi í þessu máli í vetur þegar ákveðið var að tryggja mikið fjármagn til að hefja þessa framkvæmd og því ber auðvitað að fagna. En hér er ekki eingöngu um að ræða hagsmunamál Reykjavíkurbúa og hér er ekki um að ræða botnlanga upp í Grafarvog eins og síðasti ræðumaður hv. sagði. Mér finnst það reyndar óviðeigandi að tala þannig um þetta mál því að við erum auðvitað að tala um Sundabraut í heild sinni. Það er mjög mikilvægt fyrir vestursvæði landsins og norðurhluta þess líka að tengjast miðborg Reykjavíkur, byggja þannig upp eitt atvinnusvæði og auka aðgang þessara landshluta að því stóra markaðssvæði sem Reykjavíkursvæðið er. Síðan er búið að stofna Faxaflóahafnir og það er auðvitað mikilvægt fyrir það fyrirtæki að þessi Sundabraut komist til framkvæmda sem fyrst.

En ég legg áherslu á það, virðulegur forseti, að hér er ekki eingöngu um að ræða hagsmunamál Reykjavíkurbúa heldur ekki síður mikilvæga hagsmuni fyrir íbúa í öðrum landshlutum og því legg ég eins og aðrir áherslu á að niðurstaða fáist sem fyrst í skipulagsmálum hvað varðar þessa framkvæmd og hvet þá sem halda á málum hér í Reykjavík til að bretta upp ermar og ná niðurstöðu í málinu.