132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:55]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þennan stutta tíma minn til að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði sem ég tel afar merkilegar og til mikillar fyrirmyndar, fyrirkomulag sem fleiri sveitarfélög ættu að taka upp. Það er ljóst að aldraðir vilja búa heima hjá sér sem lengst og þeir vilja búa við eðlilegt heimilislíf og að þeir finni til öryggis í öllu sínu daglega lífi. Þá þarf fjölbreytt úrræði. Eins og gert er ráð fyrir í þessum ágætu tillögum verður aukin heimahjúkrunarþjónusta þar allan sólarhringinn eftir þörfum og dagvistarrýmum fjölgað, félagsleg heimaþjónusta efld og upplýsingaþjónusta bætt við aldraða um þjónustutilboð og réttindi þeirra. Í þessum tillögum er einnig gert ráð fyrir samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu með sameiginlegri faglegri stjórn.

Þetta hefur verið gert með góðum árangri á Höfn í Hornafirði. Með því hafa sparast mörg hjúkrunarrými og fólk hefur getað verið miklu lengur heima hjá sér. Við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er þetta einn mikilvægasti málaflokkurinn sem ég tel að eigi að vera hjá sveitarfélögunum vegna nærþjónustu við íbúana. Það er svo mikil skörun verkefna og flókið fyrirkomulag sem gerir hinum öldruðu erfitt fyrir. Það er erfitt fyrir þá að leita sér upplýsinga um rétt sinn og þjónustu, hvaða úrræði standi þeim til boða og hvar þau sé að fá. Það er afskaplega mikilvægt að þessi málaflokkur sé á einni hendi, hvort sem það er hjá sveitarfélögum, sem ég tel að ætti að vera, eða hjá ríkinu. Aðalatriðið er að einhver hafi yfirsjón og beri ábyrgð á málaflokknum þannig að fólk þurfi ekki að hrekjast mikið á milli staða.