132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Sala Búnaðarbankans.

[15:09]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er náttúrlega sorglegt að maður skuli lýsa því yfir og þurfi að gera það að Ríkisendurskoðun njóti ekki trausts en það er því miður raunin. Svo virðist vera að hún sé að missa traust fleiri aðila en eingöngu mín persónulega. Ef Ríkisendurskoðun ætlar ekki að fara ofan í gögn sem kennari við Háskóla Íslands hefur komið fram með sem sýna að beitt hafi verið blekkingum við sölu ríkiseigna, eigna almennings sem tengjast með beinum hætti hæstv. forsætisráðherra, þá er ég hissa og að hún geti bara afgreitt þetta með einu símtali fyrir hádegi þegar hæstv. forsætisráðherra hringir í hana, þá er það bara afgreitt. Nei, þetta er ekki traustsins vert. Það á að fara ofan í svona mál og það er sérstaklega akkur fyrir stjórnarflokkana.