132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Kaupendur Búnaðarbankans.

[15:18]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá ósk til hæstv. viðskiptaráðherra að hún riti Fjármálaeftirlitinu bréf og leggi til að Fjármálaeftirlitið hafi samband við þýska fjármálaeftirlitið og fái endanlegan botn í það hvort umræddur þýskur banki var eigandi að bréfum í Búnaðarbankanum eða ekki.

Vissulega ber hæstv. viðskiptaráðherra mikla ábyrgð því að það er ekki bara það að viðskiptaráðherra fari með þennan málaflokk, heldur var hún einnig aðili að þessari einkavæðingu. Því skiptir miklu máli að í ljós komi hvernig að henni var staðið. Það kemur einnig fram í tilvitnaðri yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra vitnaði til áðan og hún verður ekki lesin öðruvísi en svo að bankinn hafi farið með þessi bréf í nafni annars aðila. Það er ekki hægt að skilja orðið „intermediary“ á annan hátt en þann að um tímabundna eignaraðild hafi verið að ræða. Og í ljósi þess að sú sérstaka forsenda fyrir því að tilteknum aðilum var vísað á braut sem áhuga höfðu á (Forseti hringir.) að kaupa í Búnaðarbankanum var sú að þeir höfðu ekki erlendan fjárfesti er hér um mjög stóra forsendu að ræða.