132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil líka segja í upphafi máls míns að ég tel að íslensk stjórnvöld hafi tekið ágætlega á þessu máli og með hófstilltum hætti.

Það er ágætt að heyra að það er gott samstarf á milli þeirra stofnana og ráðuneyta sem um málið fjalla og út af fyrir sig gott að vita af því öryggi sem felst í því að í einum og sama manninum búi bæði hæstv. heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra. Hins vegar er algjörlega nauðsynlegt í þessari umræðu að menn fari yfirvegað og hófstillt í hana. Það er nauðsynlegt að undirstrika þá staðreynd að við stöndum andspænis heimsfaraldri í fuglum, ekki í mönnum. Engin dæmi eru um að smit hafi borist á milli manna. Það skiptir miklu máli. Það skiptir líka máli að gera sér grein fyrir því varðandi þá hættu sem er á að smitið berist hingað til íslenskra fugla að farleiðir íslenskra fugla liggja ekki um þau svæði þar sem fuglaflensusmitið hefur greinst í Evrópu, þ.e. ekki um svæðin á Ítalíu, Búlgaríu, Rúmeníu og Grikklandi. Farfuglar sem koma hingað koma miklu vestar upp að Evrópu og nánast allir koma um Bretland. Þar er mikið eftirlit með þessu. Um leið og við vitum að smit hefur borist í fugla í Bretlandi er líklegt að það berist hingað en það er alveg ljóst að Íslendingar eru vel undirbúnir.

Það er tvennt sem veldur mér örlitlum áhyggjum. Ég tek eftir því að smit eða sýni sem tekin eru á Íslandi eru send til Svíþjóðar. Af því dreg ég þá ályktun að við höfum ekki búnað á Keldum til að greina smit í fuglum. Ég er sannfærður um að ef upp kemur faraldur er sú stofnun sem við höfum samstarf við í Svíþjóð líkleg til þess að drukkna í sýnum. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Mun hann ekki beita sér fyrir því að aðstöðu til þess að greina smit og sýni úr fuglum verði komið upp á Keldum? Í öðru lagi: Er ekki alveg ljóst að veirurannsóknadeild Landspítalans býr yfir búnaði til þess að geta greint smit í mönnum?